Vilja þak á verðtryggð lán og frystingu uppboða

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, skýrir aðgerðaáætlun í efnahagsmálum á …
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, skýrir aðgerðaáætlun í efnahagsmálum á auka flokksráðsfundi VG. mbl.is/Ómar

Vinstri hreyfingin grænt framboð telur brýnt að boða til kosninga. Það sé mikilvægur liður í endurreisn í íslenskum þjóðarbúskap og framþróun samfélagsins. Þá vill VG að sett verði þak á hækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána, vaxtabætur hækkaðar og stöðva öll nauðungaruppboð næstu 2-3 mánuði í það minnsta. Auka flokksráðsfundur VG stendur nú á Grand hóteli.

Stjórn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs segir íslenskt samfélag standa á tímamótum eftir efnahagshrun og skipbrot þeirra frjálshyggjustefnu sem hér hafi verið rekin undanfarin 17 ár. Nú taki við nýtt tímabil og þjóðin þurfi að taka mikilvægar ákvarðanir.

Vinstri-græn segjast andvíg aðild að Evrópusambandinu en framtíðarfyrirkomulag tengsla Íslands og ESB þurfi að ákveða á lýðræðislegan hátt í kjölfar vandaðrar og upplýstrar umræðu.

VG telur að þjóðin eigi val um að halda áfram á sömu braut eða velja sér aðra framtíð og breytt gildismat. Stjórn VG segist bjartsýn á að framtíðin verði okkur gjöful með  hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, félagshyggju, kvenfrelsis og friðarstefnu að leiðarljósi. Nú þurfi þjóðin sem aldrei fyrr að sameina kraftana, vera bjartsýn og hafa kjark og óbilandi trú á okkur sjálf og framtíðina.

Þjóðin kalli nú eftir breyttum vinnubrögðum, opnum og lýðræðislegum vinnubrögðum, heiðarleika, réttlæti og gagnsærri stjórnsýslu og ákvarðanatöku í hvívetna. Með slík vinnubrögð að leiðarljósi eigi þjóðin að vinna saman að endurreisn íslensks samfélags sem verði að byggjast á jöfnuði, jafnrétti,  lýðræði, fjölbreyttu atvinnulífi og sjálfbærri þróun.

Í skjali sem lagt var fyrir flokksráðsfundinn er tæpt á helstu aðgerðum sem grípa þarf til á næstunni.

Þar er efst á blaði að boða til kosninga. Ennfremur að sett verði þak á hækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og vaxtabætur hækkaðar. Þá þurfi að stöðva öll nauðungaruppboð næstu 2-3 mánuði í það minnsta.

Þá vill VG að umtalsverðu viðbótarfjármagni verði strax veitt til sveitarfélaganna. Og loks að opinberum bönkum og lánastofnunum verði gert að styðja atvinnufyrirtæki gegnum yfirstandandi erfiðleika með skuldbreytingum, nauðsynlegri rekstrar- eða endurfjármögnun.

Að lokinni fundarsetningu Katrínar Jakobsdóttur, formanns flokksráðs VG, fer Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins yfir aðgerðaáætlun VG um efnahagsmál. Stefnt er að afgreiðslu hennar að loknum umræðum undir kvöld.

mbl.is/Ómar
mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert