Yfir 8 þúsund á atvinnuleysisskrá

Alls eru 8.042 skráðir á atvinnuleysisskrá á landinu öllu samkvæmt vef Vinnumálastofnunar. Þar af eru 4.932 karlmenn og 3.110 konur. Á höfuðborgarsvæðinu eru 5.010 skráðir atvinnulausir og 1.150 á Suðurnesjum. Hlutfallslega eru flestir atvinnulausir á Suðurnesjum en atvinnuleysi mælist þar um 10%.

Alls hafði hátt í 5.000 manns verið sagt upp á árinu 2008 með hópuppsögnum í lok nóvember. Stærstur hluti uppsagnanna barst í lok október eða tæp 60%, en 11% uppsagnanna barst í nóvembermánuði.

Skráð atvinnuleysi í október 2008 var 1,9% eða að meðaltali 3.106 manns og eykst atvinnuleysi um 40% frá september eða um 877 manns.  Á sama tíma á árinu 2007 var atvinnuleysi 0,8%, eða 1.315 manns. Von er á tölum yfir skráð atvinnuleysi í nóvember síðar í vikunni.

Mest hefur verið um hópuppsagnir í mannvirkjagerð á árinu 2008, eða yfir 40% allra uppsagna og þvínæst í verslun og fjármálastarfsemi og svo flutningastarfsemi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert