Persson: Aukin lántaka - aukinn vandi

Göran Persson heilsar Jóhannesi Norðdal, fyrrum seðlabankastjóra.
Göran Persson heilsar Jóhannesi Norðdal, fyrrum seðlabankastjóra. mbl.is/Árni Sæberg

„Þið getið ekki haldið áfram að fá lán til að greiða niður vextina af skuldinni sem hefur safnast vegna bankakreppunnar. Ef þið gerið það þá verður krónunni ykkar refsað, “segir Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar.

„Krónan ykkar verður að búa yfir trúverðugleika svo það sé hægt að fleyta henni á alþjóðamörkuðum. Þetta snýst ekki aðeins um efnahagsleg grundvallaratriði, heldur snýst þetta um trúverðugleika.“

Þetta kom fram í fyrirlestri sem hann flutti í Háskóla Íslands í dag. Þar fjallaði hann um kreppuna sem reið yfir Svíþjóð á tíunda áratugnum og það sem Íslendingar gætu lært af Svíum.

„Þið eruð rétt að byrja,“ segir Göran Persson um þá erfiðleika sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir um þessar mundir. 

Hann segir íslensk stjórnvöld verði að sýna strangt aðhald í ríkisrekstri og þau vinni markvisst að því að rétta af fjárlagahallann.

„Ég gerði það og endaði sem einn hataðasti stjórnmálamaður í Svíþjóð í áraraðir, en það var þess virði þar sem hinn valkosturinn var verri,“ segir Persson og bætti við að Íslendingar verði að slá skjaldborg um ríkisreksturinn.

„Þið megið engan tíma missa. Sumir halda því fram að við eigum að bíða með að taka á endurskipulagningu ríkisfjármálanna fyrr en á næsta ári. Ég held að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé á þeirri skoðun. Því að glata ári. Hvers vegna að bíða,“ spyr Persson. 

Verði ekki gripið til aðgerða þegar í stað muni markaðurinn refsa krónunni. „Það mun leiða til þess að ríkisstjórnin eða seðlabankinn muni grípa til aðgerða til að verja krónuna,“ segir Persson og bætir við að það verði gert á forsendum ytri þátta, þ.e. markaðarins, en ekki á forsendum íslenskra stjórnvalda.

„Þið ráðið því sjálf ef þið viljið bíða. Ég tel að biðin verði of dýru verði keypt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert