Timburþilið lækkað

mbl.is/Júlíus

Það hefur vakið athygli vegfarenda í miðbæ Reykavíkur að hluti timburþils sem skýlt hefur brunarústunum á horni Lækjargötu og Austurstrætis hefur verið tekið niður.

Verið er að lækka þilið þar sem efsti hluti þess lá upp að húsinu við Lækjargötu 2 sem nú er verið að taka niður. Mun þilið lækka úr níu myndum á hæðina í fimm myndir þar sem það snýr út að Lækjargötu. 

Samkvæmt upplýsingum Kristínar Einarsdóttur, sviðsstjóra framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, stóð upphaflega aldrei til að umrætt þil, sem prýtt er myndum af börnum, yrði uppi þetta lengi. Hún segir það hins vegar þykja mjög skemmtilegt og því sé stefnt að því að hafa það uppi eitthvað áfram. Áður hefur verið rofið skarð í þilið til að auðvelda flutning efnis burt af lóðunum. 

Fornleifauppgreftri á lóðinni við Austurstræti er nú lokið en Kristín segir það mikið verk að taka niður húsið við Lækjargötu, þar sem mynda þurfi alla hluti, skrá þá og teikna þannig að hægt verði að fara eftir þeim upplýsingum við endurbyggingu hússins.

Þegar þessu verður lokið mun fornleifauppgröfur fara fram á hluta þeirrar lóðar og að því loknu getur uppbygging hafist. Kristín segir það vera á valdi borgarráðs og borgarstjórnar að ákveða hversu hratt verði farið í uppbygginguna. Stefnt hafi verið að því að ljúka endurbyggingu húsanna vorið 2010 en nú geri fyrstu áætlanir ráð fyrir að það verði haustið 2010.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert