Allt að 80% vatn í sviðasultu

Hlutfall vatns í sviðasultu sem hér til sölu er allt að 80% eftir því sem fram kemur í niðurstöðum mælinga Matís fyrir Neytendasamtökin. Súr sviðasulta er vatnsríkari en ný og reyndist vatnsinnihaldið ívið meira en áskilið er í ÍSGEM, gagnagrunni um efnainnihald matvæla.

Neytendasamtökin fengu kvörtun um að sviðasulta innihéldi of lítið af kjöti en þess meira af vatni og matarlími. Því ákváðu Neytendasamtökin að láta mæla magn vatns í fjórum tegundum sviðasulta og annaðist Matís mælingarnar.
 
Niðurstaðan var eftirfarandi:

SS sviðasulta 75,7 g/vatn í 100 g

Goða sviðasulta 74,9 g/vatn í 100 g

Sviðasulta SAH afurðir Blönduósi 76,1 g/vatn í 100 g

Nóatúns sviðasulta súr 80,3 g/vatn í 100 g

Í niðurstöðum Matís segir að súra sviðasultan sé greinilega vatnsríkari en nýja sviðasultan, enda hafi mátt sjá meira hlaup milli sviðabita í súrsuðu sultunum en hinum. Þá segir að vatnsupptaka í súrsunarferlinu geti einnig skýrt mun á vatnsinnihaldi að hluta.

Gildi fyrir sviðasultu eru birt í ÍSGEM gagnagrunninum (íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla.

Gildi fyrir nýja sviðasultu eru 74,8g vatn / 100g og fyrir súra sviðasultu 77,8g vatn / 100g.

„Samkvæmt reglugerð um kjöt og kjötvörur eru kjötsultur soðnar vörur úr kjöti og öðrum hráefnum og/eða aukefnum og mynda hlaup eftir hitun. Notað er matarlím/gelatín í þessar vörur eins og fram kemur í innihaldslýsingum. Ediksýra kemur fram í innihaldslýsingu fyrir nýja sviðasultu frá SAH afurðum en ætla má að það passi ekki fyrir þessa afurð,“ segir í niðurstöðum Matís
 
Innihaldslýsingu vantaði á umbúðir súru sviðasultunnar frá Nóatúni. „Slíkt er að sjálfsögðu ekki í samræmi við gildandi reglur, enda ber að geta innihalds í samsettum vörum eins og sviðasulta er,“ segir á heimasíðu Neytendasamtakanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert