Blóðug fjárlög

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna segir ný fjárlög verða blóðug samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar en þær séu dapurlegasta sending sem Alþingi hafi fengið í langan tíma. Forystumenn ríkisstjórnarinnar leggja á það áherslu að reynt hafi verið að verja þá sem lakast séu settir.

Ráðherrarnir sögðu að gerð væri þriggja prósenta krafa um niðurskurð á heilbrigðisstofnunum og menntastofnunum en fimm prósent krafa um niðurskurð á stjórnsýslustofnunum. Þrátt fyrir niðurskurðinn yrðu framkvæmdir þessa og næsta árs einhverjar þær mestu í sögu ríkisins til að verja atvinnustigið.

Fram kom að skattar hækka um eitt og hálft prósent, þar af fá sveitarfélögin hálft prósent. Persónuafsláttur  hækkar um 2000 krónur.

Steingrímur segir merkilegt að ekkert í tillögunum geri ráð fyrir hátekjuskatti og hann sakar ríkisstjórnina um að ráðast á almannatryggingakerfið en gert er ráð fyrir að lágmarks framfærslutrygging hækki um tuttugu prósent en bætur þar fyrir ofan um tæp tíu prósent. Steingrímur segir þarna um kjaraskerðingu að ræða fyrir stóran hóp lífeyrisþega en gert sé ráð fyrir fjórtán prósenta verðbólgu. Ráðherrarnir segja hinsvegar að kjör lægst settu lífeyrisþega hafi aldrei verið betri samanborið við lægstu laun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert