Dráttarvextir lækka um 4% um áramót

mbl.is

Dráttarvextir lækka um 4% frá og með fyrsta janúar 2009, samkvæmt lagafrumvarpi sem Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra lagði fram á Alþingi í morgun. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs muni lækka um 674 milljónir króna á árinu 2009 vegna þessa.

Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í þágu heimilanna, sem kynnt var 14. nóvember sl., og ætlað er að koma til móts við fjölskyldur og heimili í landinu í kjölfar fjármálakreppunnar sem riðið hefur yfir heiminn, kemur m.a. fram að ætlunin sé að endurskoða lög um dráttarvexti með það að markmiði að dráttarvextir lækki.

Í frumvarpi viðskiptaráðherra eru lagðar til breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, en þar er kveðið á um hvernig skuli reikna dráttarvexti. Í greinargerð segir að markmið frumvarpsins sé að draga úr kostnaði fyrirtækja og heimila vegna óhóflega hárra dráttarvaxta, sem leitt geti til mikilla greiðsluerfiðleika og komið í veg fyrir að aðilar geti komið sér út úr fjárhagsvandræðum.

Í lögum um vexti og verðtryggingu segir að dráttarvextir eigi að vera samtala gildandi vaxta algengustu skammtímalána Seðlabanka Íslands til lánastofnana, auk 11% álags, nema um annað sé samið. Í frumvarpinu er lagt til að álagið lækki niður í 7%.

Að miða vanefndaálag við 7% er í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum sem innleidd var hér á landi.

Í frumvarpi viðskiptaráðherra er ennfremur lagt til að heimild Seðlabankans til að ákveða annað vanefndaálag verði felld brott.

Dráttarvextir eru nú 26,5% og hafa verið í hálft ár. Grunnur dráttarvaxtanna er 15,5% og vanefndaálag 11%. Að því gefnu að grunnurinn breytist ekki lækka dráttarvextir niður í 22,5% um áramót.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert