Heildarvísitala þorsks aldrei hærri

Reuters

Hafrannsóknastofnun segir, að nýafstaðin stofnmæling gefi bjartari horfur af ástandi þorskstofnsins en áður. Heildarvísitala þorsks mældist mun hærri en undanfarin ár í stofnmælingu botnfiska á vegum Hafrannsóknarstofnunar sem fram fór í 13. sinn dagana 26. september - 3. nóvember s.l. Er vísitalan nú sú hæsta frá því rannsóknirnar hófust árið 1996, rúmlega 10% hærri en hún var árin 1998 og 2004.

Segir á vef Hafrannsóknastofnunar að mæliskekkja í vísitölunni sé heldur hærri en undanfarin ár sem endurspeglar ójafna dreifingu þorsksins þar sem tiltölulega stór hluti af þorskmagninu fékkst á fáum togstöðvum. Lengdardreifing sýnir að fjöldi þorska hefur aukist í öllum stærðarflokkum nema í stærðarflokknum 50-60 cm, en sá stærðarflokkur svarar til árgangsins frá 2004 sem er mjög lélegur.

Samanborið við fyrri ár sker árið 2008 sig úr varðandi fjölda af stórum þorski. Hlutdeild 90 cm og stærri þorsks í vísitölunni var um 20%, sem er hæsta gildið frá upphafi. Hlutdeild 80 cm og stærri þorsks var um 35% og hefur ekki verið jafn há frá því árinu 1996.

Minna fannst af ýsu

Heildarvísitala ýsu lækkaði um 16% frá árinu 2007 og er nú um 70% af því sem hún var árið 2004 þegar hún var hæst . Vísitalan er þó enn há miðað við það sem hún var fyrir árið 2002. Lækkun vísitölurnar er vegna þess að stórir árgangar eru að hverfa úr stofninum og þeir sem taka við eru lélegri, að því er segir á vef Hafró.

Sjá niðurstöðu stofnmælingar botnfiska á vef Hafrannsóknarstofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert