Óljóst hverju nefskattur skilar

Útvarpshúsið við Efstaleiti.
Útvarpshúsið við Efstaleiti. mbl.is

Frumvarp menntamálaráðherra um breytingar á lögum um RÚV, sem lagt hefur verið fyrir Alþingi, mun hafa töluverð áhrif á rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. Í raun hafa áhrifin þegar komið fram með boðuðum uppsögnum og minnkandi þjónustu, þar sem m.a. innheimtudeildin leggst af.

Umsvif RÚV á auglýsingamarkaði verða takmörkuð og ákveðið hefur verið að hækka nefskattinn sem taka átti gildi á komandi ári. Afnotagjaldið leggst því af og 17.900 króna nefskattur verður lagður á hvern einstakling 18 til 70 ára, átti að vera 14.580 krónur, auk þess sem lögaðilar á borð við fyrirtæki og stofnanir munu greiða skattinn.

Mikil óvissa ríkir hins vegar um hve miklu nefskatturinn mun skila í ríkissjóð. Í greinargerð með frumvarpinu er gengið út frá því að 205 þúsund greiðendur verði að nefskattinum árið 2009 en jafnframt sleginn sá varnagli að vegna efnahagsástandsins geti sú tala verið ofáætluð. Einnig er óvíst að takist að innheimta meiri tekjur þótt gjaldendum fjölgi. Þá kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra að nokkur þúsund lögaðilar séu ekki lengur með starfsemi og eigi engar eignir.

Áætlað er á fjárlögum þessa árs að afnotagjald RÚV skili 2.930 milljóna króna tekjum. Með 5% hækkun á afnotagjaldinu 1. ágúst sl. bættust við 60 milljónir króna þannig að tekjur ársins gætu orðið um þrír milljarðar.

Fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið að það geti aukið tekjur ríkissjóðs af RÚV um 705 til 1.055 milljónir króna, miðað við áætlun í fjárlagafrumvarpi næsta árs upp á 2.945 milljóna kr. tekjur af nefskattinum. Er þá annars vegar miðað við að nefskatturinn skili 3.650 milljónum í innheimtar tekjur og hins vegar að álagðar tekjur nemi um 4.000 milljónum króna.

Forráðamenn RÚV hafa komið þeim athugasemdum á framfæri við ráðuneyti menntamála og fjármála að nefskatturinn hefði þurft að vera ríflega 20 þúsund krónur ef aðeins er tekið mið af verðlagsþróun. Bendir RÚV á að ríkið hafi ekki staðið við verðtryggingu á afnotagjaldi samkvæmt gerðum þjónustusamningi frá 2007.

Menntamálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu í gær en það gæti átt eftir að taka breytingum í meðförum Alþingis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert