Pípulagningamaðurinn sakfelldur fyrir líkamsárás

mbl.is

Héraðsdómur Suðurlands sakfelldi í dag pípulagningamann fyrir líkamsárás í sumarbústað í Grímsnesi. Maðurinn var ósáttur við greiðsludrátt sumarbústaðaeiganda sem hann hafði unnið fyrir og fór því í bústaðinn og tuktaði hann til. Tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, var hæfileg refsing fyrir árásina að mati dómara.

Lögreglan fékk tilkynningu um líkamsárás í sumarbústað í Grímsnesi í mars síðastliðnum. Sá er fyrir árásinni varð sagðist hafa verið í viðskiptum við pípulagningamann, sem hefði unnið tiltekið verk og fengið greitt fyrir en verkinu hefði ekki verið lokið. Pípulagningamaðurinn hefði komið í bústaðinn og krafist greiðslu fyrir verkið en sá er fyrir árásinni varð, svarði því til að hann myndi greiða þegar verkinu væri lokið. Hefði Pípulagningamaðurinn þá byrjað að æsa sig og rifið með báðum höndum í skyrtukraga sumarbústaðaeigandans og henst með hann um húsnæðið og meðal annars hent sér utan í listaverk skammt frá innganginum.

Héraðsdómur Suðurlands sakfelldi pípulagningamanninn fyrir líkamsárás og taldi árásarþola eiga rétt á miskabótum. Dómurinn segir ósannað það andlega tjón sem sumarbústaðaeigandinn kunni að hafa orðið fyrir. Hins vegar hafi sumarbústaðaeigandinn mátt þola ógnvekjandi árás en mikill mismunur er á líkamsburðum ákærða og árásarþola, hvað ákærði er meiri að burðum.

Sumarbústaðaeigandinn gerði kröfu um rúmlega 800 þúsund króna bótum en héraðsdómur Suðurlands taldi rúmlega 200 þúsund króna bætur hæfilegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert