Ólögleg sérleyfi veitt Strætó?

Lögfræðingur fyrirtækisins Bíla og fólks ehf. hefur fyrir hönd þess ritað bréf til Vegagerðarinnar vegna veitingar einkaleyfis á akstursleiðunum Selfoss – Reykjavík og Borgarnes – Reykjavík og mótmælt þeirri leyfisveitingu til Strætó bs. Bílar og fólk ehf. rekur langferðabíla og sinnir mest sérleyfisakstri á Norðurlandi og Vesturlandi.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá lögfræðingi okkar, telur hann að Vegagerðin hafi ekki lagaheimild til veitingar leyfis á akstri strætisvagna milli þéttbýlisstaða. Vitnar hann til laga um veitingu einkaleyfa þessu til stuðnings. Samkvæmt þeim lögum getur Vegargerðin eingöngu veitt einkaleyfi innan þéttbýlisstaða en ekki á milli þeirra. Hvetjum við því Vegagerðina til þess að virða þessi lög,“ segir í tilkynningu frá Óskari Stefánssyni, forsvarsmanni Bíla og fólks.

Þar segir að ólík lög gildi varðandi sérleyfis- og hópferðaakstur annars vegar og strætóaksturs hinsvegar. Bílar sem notaðir séu sem strætisvagnar á einkaleyfisleið fái t.d. 80% af olíuverði endurgreitt á meðan sérleyfisbílar njóti ekki slíkar niðurfellingar. „Við mótmælum því harðlega þessari ólögmætu mismunun,“ segir Óskar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert