Afskrifa 123 milljóna skuld RÚV við ríkissjóð

Ríkisútvarpið ohf. fær tæplega 200 milljóna króna aukafjárveitingu samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í dag.

Annars vegar er um að ræða 122,8 milljónir svo unnt sé að afskrifa jafnháa kröfu ríkissjóðs á RÚV ohf. Um er að ræða skuld sem myndaðist fyrstu mánuði ársins 2007 áður en stofnuninni var breytt í hlutafélag í eigu ríkissjóðs. Markmiðið með aðgerðinni er að eiginfjárhlutfall hlutafélagsins nái að verða 15% í stofnefnahagsreikningi þess.

Við aðra umræðu fjáraukalaga ársins 2006 var veitt 625 milljóna króna heimild í sama tilgangi. Samanlagt nema afskriftir skulda RÚV við ríkissjóð árin 2006 og 2007, 747,8 milljónum króna.

Þá fær RÚV ohf., samkvæmt fjáraukalagafrumvarpi nú, viðbótarframlag upp á 74 milljónir króna þar sem afnotagjöld voru hækkuð um 5% 1. ágúst 2008. Er þá áætlað að afnotagjöld skili RÚV 2.990 milljónum króna á þessu ári.

Loks er í frumvarpi til fjáraukalaga sótt um heimild til að skuldbreyta 563 milljóna króna skammtímaskuld RÚV við ríkissjóð í langtímalán. Samkvæmt heimildinni verður eftirstöðvum af skuldum RÚV ohf. við ríkissjóð breytt í skuldabréf til 15 ára sem ber fasta vexti, auk verðtryggingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert