Breyttur leiðari DV

Jón Trausti Reynisson, ritstjóri DV
Jón Trausti Reynisson, ritstjóri DV

Leiðari DV sem birtist á vef dagblaðsins er ekki sá sami og birtist í dagblaðinu í morgun þrátt fyrir að fyrirsögnin sé sú sama og einnig höfundurinn, Jón Trausti Reynisson, ritstjóri DV.

Í leiðaranum sem birtur er á vef DV í dag er bætt inn setningu þar sem fjallað er um óstaðfestar ávirðingar vegna fréttar um Sigurjón bankastjóra. „Sú umræða byggist á sögusögnum og á ekkert erindi í opinbera umræðu."

Síðan er heilum kafla bætt inn sem hvergi er að finna í dagblaðinu DV í morgun: „Kappsemi Jóns Bjarka fór þó með tímanum að snúast upp í andhverfu sína fyrir skemmstu. Blaðamaðurinn efnilegi var sendur til að fjalla um mótmæli við Ráðherrabústaðinn, en fór þar úr hlutverki blaðamanns þegar hann fór gegn lögreglunni með fasi mótmælanda, í stað þess að skrásetja atburðinn hlutlaust. Komið er í ljós að blaðamanninum láðist að upplýsa ritstjóra DV um að hann væri í vinfengi við mótmælendurna sem hann fjallaði um. Blaðamaður á að gæta hlutleysis í fréttamennsku, og alls ekki að fjalla um aðila sér tengda. Hann á ekki heldur að vera virkur þátttakandi í mótmælastarfsemi, og þá sérstaklega ekki þegar hann gegnir störfum blaðamanns á vettvangi. Hann á ekki heldur að fara með óstaðfestar fréttir í fjölmiðla, eins og þá að einhver hafi hótað DV." Þessari málsgrein lýkur á þessum orðum sem bæði birtast í DV í morgun sem og á vef DV: „Engar fréttir eru stöðvaðar í DV nema þær sem uppfylla ekki kröfur um eðlilega blaðamennsku."

Hins vegar er ekki birt á netinu framhald frásagnarinnar: „Það sama gilti um frétt Jóns Bjarka af Sigurjóni Þ. Árnasyni. Aldrei stóð til að fréttin yrði ekki birt, en hún var hins vegar bæði hálfkláruð og á sama tíma bárust óljósar hótanir. DV mun ekki lýsa yfir að einhver hafi hótað blaðinu nema hægt sé að færa sönnur á það. Ávirðingar í garð Björgólfs Guðmundssonar um að hann hafi beitt sér til að loka á prentun DV eru einnig óstaðfestar og gátu því ekki verið settar fram opinberlega af hálfu fjölmiðils. Frestun á frétt um Sigurjón stýrðist af nokkrum ástæðum, svo sem að fréttin hafði komið fram áður, að ekki var leitað viðbragða málsaðila og að ástæða var að ætla að fjölmiðillinn yrði beittur ósýnilegu ofbeldi. Það eitt og sér gefur tilefni til alvarlegrar umræðu um ítök valdamanna í þjóðfélaginu, en þeirri umræðu gat ritstjórn DV ekki komið af stað, vegna þess að ekki var unnt að staðfesta það."

Sjá leiðara DV í dag í netútgáfu blaðsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert