Mótmælum hætt á Tjarnargötu

Mótmælendur ganga eftir Tjarnargötu framhjá Ráðherrabústaðnum.
Mótmælendur ganga eftir Tjarnargötu framhjá Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Júlíus

Mótmælaaðgerðum hefur nú verið hætt við Ráðherrabústaðinn en mótmælendur gerðu samkomulag við lögreglu um að þeir mættu ganga framhjá bústaðnum á leið sinni niður í miðborgina. Áður hafði komið til átaka þegar mótmælendur reyndu að fara inn á skilgreint öryggissvæði lögreglunnar framan við húsið.

Mótmælendur söfnuðust saman um klukkan 8:45 framan við Iðnó og gengu að Ráðherrabústaðnum þar sem ríkisstjórnarfundur stendur nú yfir. Lögregla var með mikinn viðbúnað og er áætlað að 60-70 lögreglumenn hafi verið utan við Ráðherrabústaðinn. 

Um 200 mótmælendur voru við Tjarnargötu þegar mest var og hrópuðu þeir slagorð og kröfðust afsagnar ríkisstjórnarinnar. Ráðherrar fóru inn í húsið bakdyramegin. 

Nokkrir úr hópnum reyndu nokkrum sinnum að fara inn á öryggissvæði, sem lögreglan hafði skilgreint framan við húsið. Lögreglumenn tóku á móti og kom til nokkurra stympinga. Í kjölfarið gerði talsmaður mótmælenda samkomulag við lögreglu um að mótmælunum yrði hætt ef hópurinn mætti ganga framhjá Ráðherrabústaðnum á leið sinni niður í bæ og gekk það eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert