Bitnar á gæðum námsins

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Þorkell

Ekki verða lagðar niður neinar námsbrautir við Háskóla Íslands á vormisseri, en vera kann að gripið verði til slíkra aðgerða næsta haust. Starfsfólk HÍ virðist þó nokkuð einhuga um að mæta auknum nemendafjölda eftir bestu getu þótt ljóst sé að 13% fjölgun nemenda á sama tíma og framlög eru skorin niður um rúmar 950 milljónir muni að einhverju leyti bitna á gæðum námsins.

„Við stöndum frammi fyrir miklum vanda. Það á eftir að verða þrautin þyngri að láta enda ná saman á næsta ári, hvað þá ef við ætlum að opna skólann upp á gátt og taka við þessum stóra hópi,“ segir Guðmundur R. Jónsson, formaður fjármálanefndar HÍ.

1.625 umsóknir höfðu borist skólanum er umsóknarfrestur um nám á vormisseri 2009 rann út á mánudag og er það metfjöldi umsókna um nám á vormisseri. „Við ógnum algjörlega innra starfi skólans ef við neyðumst til að taka við svona mörgum nýskráningum og fáum það ekki með einhverjum hætti bætt.“ Fái skólinn ekki greitt samkvæmt samningi ríkisins um eflingu kennslu og rannsókna við HÍ fyrr en 2010 hljóti það að hafa áhrif á gæði kennslu og rannsókna.

Þeir Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindasviðs, og Ástráður Eysteinsson, forseti hugvísindasviðs, samsinna því að niðurskurðurinn hljóti að koma niður á gæðum kennslunnar. „Álagið á kennara verður meira og stórum námskeiðum fjölgar og fyrir vikið færast þau meira yfir í fyrirlestraform,“ segir Ástráður. Á hugvísindasviði hefur þegar verið gripið til þeirra ráðstafana að fella viss námskeið niður verði þau ekki nógu fjölmenn eða breyta fyrirkomulaginu til að gera þau ódýrari.

„Við lítum á þetta sem tímabundið neyðarástand,“ segir Ólafur. „Við erum langfjölmennasta svið háskólans og höfum búið við að vera með tiltölulega marga nemendur á kennara í mörgum greinum. Við höfum því ekki getað veitt nemendum eins persónulega þjónustu og við hefðum viljað.“ Minna hafi t.d. verið um umræðutíma og stefna HÍ hafi verið að bæta þetta verulega. Niðurskurðurinn nú þýði að af því verði ekki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert