Viðbrögð ríkisstjórnarinnar mikil vonbrigði

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Frikki

Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusamband Íslands lýsir miklum vonbrigðum við viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við áherslum ASÍ vegna fjárlagafrumvarpsins. Forseti og varaforseti ASÍ gengu í dag á fund oddvita ríkisstjórnarinnar til að kynna þeim kröfur ASÍ um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Í yfirlýsingu frá ASÍ segir að það hafi verið von forystunnar að hægt yrði að ná samkomulagi við stjórnvöld sem lagt gæti ásættanlegan grundvöll að vinnu við endurskoðun og endurnýjun kjarasamninga fyrir árin 2009 og 2010, nú strax eftir áramót en það hafi ekki gengið eftir. „Einkum strandar á vilja ríkisstjórnarinnar til að endurskoða áform um mikla skerðingu bóta elli- og örorkulífeyrisþega nú um áramótin,“ segir í yfirlýsingunni.

Einnig lýsir forysta ASÍ miklum áhyggjum sínum með afdrif frumvarps til laga um greiðsluaðlögun sem heimili niðurfærslu og skilmálabreytingu á húsnæðisskuldum heimilanna, en um efni þess er enn mikill ágreiningur.

Miðsjórn ASÍ ályktaði um fjárlagafrumvarpið á síðasta fundi sínum á árinu í dag. Þar voru, auk tillögu um að dregið verði úr niðurskurði elli- og örorkulífeyris, lagðar fram eftirfarandi tillögur sem miðstjórn ASÍ telur nauðsynlegt að gerðar verði breytingar a ef skapast á ásættanlegur grundvöllur að gerð komandi kjarasamninga: 
  • Unnið verði á næstu vikum að tillögum um það hvernig auka megi tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins.
  • Sett verði lög um greiðsluaðlögun sem heimili niðurfærslu og skilmálabreytingu á húsnæðisskuldum heimilanna.
  • Stofnaður verði Bjargráðasjóður heimilanna til að auðvelda niðurfærslu húsnæðisskulda.
  • Settur verði starfshópur með fulltrúum byggingarmanna til að fara yfir verklegar framkvæmdir og forgangsraða mannaflsfrekum framkvæmdum.
  • Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn njóti sömu lífeyrisréttinda og aðrir opinberir starfsmenn.
  • Staðið verði við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008.

Þessar tillögur voru lagðar fyrir oddvita ríkisstjórnarinnar í dag við dræmar undirtektir. SEgir í yfirlýsingu ASÍ að viðbrögðin séu mikil vonbrigði, en þó hafi komið fram vilji til að skoða ýmis mál áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert