Vona að framlög í sprotasjóðinn BJÖRK verði á annan milljarð

Björk Guðmundsdóttir.
Björk Guðmundsdóttir. mbl.is/HAG

„Þetta er hugmynd Auðar og mikill heiður að [sjóðurinn] heiti í höfuðið á mér," segir Björk Guðmundsdóttir, en hún ásamt Auði Capital hefur stofnað fagfjárfestasjóðinn BJÖRK.  Hann á að fjárfesta í sprotafyrirtækjum á Íslandi og standa vonir stofnenda til þess að á annan milljarð króna verði til ráðstöfunar úr sjóðnum.

Auður Capital hefur þegar lagt sjóðnum til 100 milljónir króna, að því er fram kom á kynningarfundi vegna sjóðsins í dag.  Halla Tómadóttir, stjórnarformaður Auðar Capital, er bjartýn á að áhugasamir fjárfestar leggi honum til fé.

Sjóðurinn er hugsaður sem farvegur fyrir fjárfesta sem hafa áhuga á að beina fé í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, en á næsta ári á að verða hægt að sækja um styrki úr honum.

„Það hefur komið í ljós eftir að bankarnir hrundu og við stóðum frammi fyrir þessum ótrúlegu tímum á Íslandi að frumkvöðla- og sprotastafsemi hefur átt mjög undir högg að sækja," segir Halla. Þetta gildi bæði um aðgang að mannauði, sem að miklu leyti hafi farið í bankana, en ekki síður peninga.

Eigi að byggja nýtt Ísland verði það að vera fjölbreyttara en það sem áður var. „Við horfum sérstaklega til þess að setja fé í sjálfbær fyrirtæki," segir Halla. Þau fyrirtæki sem fái styrki verði að vera fjárhagslega arðbær, stunda samfélagslega ábyrga viðskiptahætti og vera umhverfisvæn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert