Seðlabankinn varaður við í júní

Í skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sem lögð var fyrir Seðlabankann í júlí kom fram að bankarnir væri of stórir og gætu ekki lifað af að óbreyttu. Þetta kom fram á fundi Poul Thomsen, formanns Íslandsnefndar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, með íslenskum hagfræðingum í gær en þar var leitað eftir viðbrögðum þeirra við aðgerðaráætlun sjóðsins.

Lilja Mósesdóttir var á fundinum en þar var meðal annars vísað í skýrslu sendinefndar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um íslensku bankana sem kom út í júlí eftir að sendinefnd sjóðsins hafði gert úttekt á stöðu íslenska fjármálakerfisins. Þar kom fram að bankarnir væru of stórir fyrir íslenskt hagkerfi og stæðust ekki til lengdar.  Þegar skýrslan var kynnt íslenskum fjölmiðlum var helsta áherslan lögð á jákvæða þætti hennar.

Lilja var spurð hvort þessi skýrsla kynni að hafa verið innblástur Davíðs Oddssonar í samtali við Geir H. Haarde í júní, en hann sagði sem kunnugt er viðskiptanefnd Alþingis , að þar hefði hann sagt að núll prósent líkur væru til þess að bankarnir lifðu af. Lilja segir að skýrslan hafi líklega verið afhent Davíð Oddssyni til yfirlestrar í júní og honum ætti því að hafa verið ljóst hvert efni hennar var á þeim tíma.

Eignir bankanna voru þúsund prósent af vergri landsframleiðslu. Lilja segir að komið hafi fram að stærð efnahagshrunsins,  væri ástæða þess að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn  væri tilbúinn að sveigja frá hefðbundnum aðferðum  meðal annars að leyfa gjaldeyrishöft en alger óvissa væri um eftirspurn eftir íslensku krónunni.

Þá er óvenjulegt að sjóðurinn horfi fram hjá jafn miklum halla á fjárlögum og er hér. Lilja segir að því hafi verið svarað til að það væri líka vegna stærðar efnahagshrunsins. Eftir árið 2010 er gert ráð fyrir hallalausum ríkissjóði, þá taka við afborganir af láninu frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og fleiri þjóðum.  

Gert er ráð fyrir hallalausum fjárlögum árið 2010 en þá taka afborganir af láni AGS við.  Erfitt gæti þó reynst að fjármagna hallann þangað til en Lilja segir að leyfi hafi fengist fyrir honum vegna stærðar efnahagshrunsins.  Þá hafi komið fram hjá Paul Thomsen að engar beinar aðgerðir geti dregið alveg úr sársauka almennings á næstu árum eða jafnvel lengur en það.

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert