Vilja stjórnendur bankanna burt

Frá mótmælafundi samtakanna á Austurvelli
Frá mótmælafundi samtakanna á Austurvelli mbl.is

Talsmenn Radda fólksins kröfðu viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, um tafarlausan brottrekstur æðstu stjórnenda nýju bankanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

„Fall gömlu bankanna þriggja, Glitnis, Landsbankans og Kaupþings, í byrjun október sl. markaði upphafið að ferli sem virtir íslenskir hagfræðingar hafa líkt við að nifteindasprengju væri varpað á Ísland. Efnahagslegur grundvöllur landsins hefur verið þurrkaður út og Íslendingar standa ráðþrota eftir með drápsklyfjar sem stjórnvöld, útrásarvíkingar og forsvarsmenn gömlu bankanna hafa kallað yfir almenning með vítaverðu sinnuleysi og vankunnáttu.

Ljóst er að stjórnendur gömlu bankanna fóru offari í skjóli máttlítilla ríkisstofnanna og stórhættulegra tengsla ráðamanna og peningafursta. Þannig námu umsvif gömlu bankanna a.m.k. 12 földum tekjum ríkisins á ársgrundvelli og engin von til þess að ríkið gæti hlaupið undir bagga með bönkunum ef illa færi.

Segja má að víxlverkandi áhrif glæpsamlegrar vankunnáttu æðstu stjórnenda gömlu bankanna, einbeittur brotavilji svokallaðra útrásarvíkinga og algert getuleysi ríkisstjórnar og ríkisstofnanna að bregðast við vandanum hafi varðað leiðina í mesta efnahagshruni sem dunið hefur yfir þjóðina.

Það er því grafalvarlegt og með öllu óásættanlegt að margir æðstu stjórnendur gömlu bankanna hafi verið endurráðnir í æðstu stjórn nýju bankanna, þ.m.t. bankastjórar Glitnis og Landsbankans. Þessi glæpsamlega ráðstöfun gjaldfellir trúverðugleika nýju bankanna og gerir þá að aðhlátursefni um heim allan. Það er skilyrðislaus krafa Radda fólksins að þessir stjórnendur verði tafarlaust reknir og rannsókn hafin á því hvernig stendur á aðkomu þeirra að nýju bönkunum. Raddir fólksins lýsa fullri pólitískri ábyrgð á hendur þeim sem þannig véluðu með fjöregg þjóðarinnar og telja einsýnt að þeir ráðamenn sem áttu hlut að máli axli ábyrgð og segi af sér," að því er segir í tilkynningu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert