Áfram auglýsingar á RÚV

Menntamálanefnd Alþingis hefur ákveðið að fresta því fram á næsta ár að takmarka umsvif RÚV á auglýsingamarkaði. Nefndin, sem kom saman til fundar í dag, hyggst leggja fram sér frumvarp um útvarpsgjald sem tekur gildi um áramót. Gjaldið mun nema 17.200 kr. sem er lækkun frá því sem áætlað var.

Sigurður Kári Kristjánsson, formaður nefndarinnar, segir að meiri tíma þurfi til að vinna frumvarpið. Það sé flókið og fjöldi athugasemda hafi borist, m.a. frá kvikmyndagerðarmönnum, auglýsendum og auglýsingagerðarmönnum. 

Nefndin beinir því til starfhóps menntamálaráðherra að útfæra reglur um auglýsingar RÚV og um leið varðandi eignarhald á fjölmiðlum. Þau mál verði að haldast í hendur. Nefndin fær frest fram til 15. febrúar, að sögn Sigurðar Kára og vinnunni því hraðað eins mikið og unnt er. Þá segir Sigurður Kári að ef eigi að takmarka umsvif RÚV á sjónvarpsmarkaði eigi það ekki eingöngu að ná til sjónvarpsauglýsinga heldur líka útvarps. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert