Ágirntust þeir FS13 ehf.?

KPMG
KPMG mbl.is/Sverrir

Snemma árs 2007 leitar Árni B. Sigurðsson fjárfestir til fyrirtækjasviðs KPMG. Hann sækist eftir aðstoð við að stofna einkahlutafélag og finna fjárfesta til samstarfs um viðskiptahugmynd sína, rekstur viðarkurlsverksmiðju í Króatíu. Úr verður að hann kaupir félag „af lager“ hjá fyrirtækinu CF fyrirtækjasölu, sem er í eigu KPMG. Félagið sem Árni kaupir heitir FS13 ehf.

Nú, tveimur árum síðar, eru tveir starfsmenn KPMG, þeir Ágúst Þórhallsson, lögfræðingur fyrirtækjasviðs ,og Hjörtur J. Hjartar ráðgjafi ákærðir fyrir að reyna að hafa FS13 af Árna með ólögmætum hætti.

Samkvæmt ákæru, útgefinni af saksóknara efnahagsbrota, hafa þeir brotið gegn lögum um einkahlutafélög með því að senda ranga tilkynningu til Fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra (RSK), vegna FS13. Tilkynningin var um breytingu á prókúru, stjórn og firmaritun og um nýjar samþykktir. Í tilkynningunni kemur fram að breytingarnar á félaginu hafi verið ákveðnar á löglegum hluthafafundi, en þeim Ágústi og Hirti átti alltaf að vera ljóst að hann var ólöglegur. Aðkoma Sigurðar Jónssonar, forstjóra KPMG, að málinu vekur líka spurningar um viðskiptasiðferðið innan veggja KPMG.

Málið var tekið fyrir á þriðjudag, 16. desember. Þess skal einnig getið að höfðað hefur verið einkamál gegn Hirti og Ágústi, KPMG hf. og Róberti Melax, til greiðslu tæplega 1,3 milljóna evra auk dráttarvaxta. Það mál verður tekið til meðferðar eftir áramót, en í janúar mun ríkissaksóknari taka afstöðu til þess hvort Ágúst, Hjörtur og Róbert verði ákærðir fyrir brot gegn almennum hegningarlögum.

Róbert Melax til samstarfs

Morgunblaðið hefur gögn málsins undir höndum. Þau sýna að starfsmenn KPMG fengu fjárfestinn Róbert Melax til samstarfs við Árna Sigurðsson og FS13. Róbert er mágur Sigurðar Jónssonar, forstjóra KPMG. Fyrst átti Róbert aðkomu í gegnum félagið Still River Overseas, en síðar tók annað félag, Standhóll ehf., við öllum réttindum þess. Standhóli var formlega stjórnað af starfsfólki Kaupþings í Lúxemborg, samkvæmt samningi við Róbert. Samtals greiddu félög í hans eigu rúmar 1,8 milljónir evra til FS13, og fékk KPMG þóknun frá FS13 í ákveðnu hlutfalli við þá upphæð. 350 þúsund evrur eða rúmar 50 milljónir króna á núvirði. Fljótlega var líka stofnað dótturfélag FS13 í Króatíu. Það nefndist „FS13 d.o.o.“

Á þessu tímabili var fjögurra manna stjórn FS13 skipuð þeim Róberti Melax, Sigrúnu Melax, Árna B. Sigurðssyni og Jóni Magnússyni, lögmanni og þingmanni, sem settist í stjórn Árna til halds og trausts.

Það var svo 12. desember 2007 sem allt fór í háaloft milli aðila samkvæmt gögnum málsins. Árni var þá staddur í Króatíu og vann að viðskiptaáætlun sinni. Á meðan héldu Ágúst Þórhallsson og Hjörtur J. Hjartar ólöglegan hluthafafund í FS13, á starfsstöð KPMG. Niðurstaða fundarins var sú að þeir tveir skipuðu stjórn félagsins, en Hjörtur væri framkvæmdastjóri og prókúruhafi.

Því næst sannfærði Hjörtur forstöðumann fyrirtækjasviðs Ríkisskattstjóra, Skúla Jónsson, um að taka við fyrrgreindri tilkynningu, þar eð skrifleg staðfesting fyrri stjórnar FS13 bærist fljótlega.

Sama dag byrjaði Hjörtur að selflytja peninga út úr FS13, samkvæmt kæru í einkamálinu. Hún var lögð fram 27. maí síðastliðinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert