Þögul mótmæli á Austurvelli

Sem fyrr stýrði Hörður Torfason mótmælum dagsins.
Sem fyrr stýrði Hörður Torfason mótmælum dagsins. mbl.is

Raddir fólksins stóðu í dag fyrir ellefta mótmælafundi sínum í röð á Austurvelli. Líkt og síðasta laugardag voru mótmælin þögul og stóðu yfir í 11 mínútur, þ.e. ein mínúta fyrir hvern laugardag sem mótmælin hafa staðið yfir.

Í samtali við Morgunblaðið segir Hörður Torfason, skipuleggjandi þeirra, mótmælin hafa farið vel fram. Nokkuð færri hafi mætt en fyrir viku, sem hafi verið viðbúið þar sem margir séu við hugann við jólaundirbúninginn. Sem fyrr kröfðust viðstaddir því að bankastjórn Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins yrðu látnar víkja og að boðað yrði til kosninga strax. 

Að sögn Harðar púuðu fundargestir kröftuglega að Alþingishúsinu undir lok mótmælanna auk þess sem gömlum skóm var kastað í átt að húsinu. Aðspurður segir Hörður ljóst að skókastið hafi verið innblásið af skókasti íraska fréttamannsins að George W. Bush Bandaríkjaforseta fyrir skemmstu. 

Samtökin Raddir fólksins hafa boðað kröftug mótmæli fyrstu helgina eftir jól, 27. desember til þess að setja aukinn þrýsting á stjórnvöld. Að sögn Harðar verða þá fluttar tvær ræður og ekki lengur þagað. Segist hann búast við miklum mannfjölda þá, enda jólin þá að baki. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert