17 milljónir á Bessastaði

mbl.is/Kristinn

Kostnaður við að bæta öryggisráðstafanir á Bessastöðum nemur um 17 milljónum króna og verður greiddur úr ríkissjóði. Þetta kemur fram í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar við þriðju umræðu um fjáraukalagafrumvarpið. Felst þetta einkum í uppsetningu á öryggishliði og öryggismyndavélum.
Í breytingartillögunum er lagt til að Umboðsmaður barna fái 5 milljón króna framlag vegna námsvefs um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 100 milljónir til viðbótar fara í fullorðinsfræðslu og símenntun og uppsafnaður rekstrarhalli Lögreglustjórans á Suðurnesjum verður felldur niður. Þá fá einstök hjúkrunarheimili auka framlag til að mæta rekstrarhalla og 130 milljónum verður varið til að styrkja rekstrarstöðu Flugstoða ohf. en í greinargerð segir að fyrirtækið hafi ekki náð nægilega góðri afkomu í starfsemi sl. tvö ár.
Þá fær jöfnunarsjóður sveitarfélaga 239 milljónum krónum hærra framlag og Fjármálaeftirlitið fær 549 milljónir til að mæta auknum kostnaði vegna neyðarlaganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert