Asahláka og stormviðvörun

Veðurstofan gerir ráð fyrir stormi um vestanvert landið undir kvöld. Spáð er vaxandi suðaustanátt, 13-20 m/s um og eftir hádegi og víða rigningu, þó síst á Norðausturlandi. Vindur fer vaxandi eftir því sem líður á daginn og fer veður hlýnandi.

Þar sem spáð er asahláku og stormi víða um land í kvöld og næstu daga vill Forvarnahúsið hvetja fólk til að grípa til ráðstafana  svo jólahátíðin byrji ekki með tjóni og skemmdum. Forvarnahúsið hvetur fólk til að festa vel niður allt lauslegt á lóðum s.s. jólaskreytingar og húsgögn. Þá þarf að ganga tryggilega frá trampólínum sem enn eru úti þannig að þau fjúki ekki.

Fólk er hvatt til að hreinsa vel frá niðurföllum og af svölum svo ekki flæði inn. Þá þarf að gæta að því hvort hætta sé á að snjór á þökum falli á fólk eða bíla. Hætta er á hálku í umhleypingunum og því brýnt að fara varlega þegar hálka og mikill vindur fara saman.

Veðurspá næsta sólarhringinn

Viðvörun: Gert er ráð fyrir stormi um landið vestanvert undir kvöld. Spá: Vaxandi suðaustanátt, 13-20 m/s um og eftir hádegi og víða rigning, þó síst á Norðausturlandi. Sunnan 15-25 í kvöld, hvassast vestast og á Miðhálendinu. Hlýnandi, hiti yfirleitt á bilinu 3 til 10 stig undir kvöld. Suðvestan 13-23 á morgun og él, hvassast norðvestantil. Léttskýjað að mestu á Norðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 0 til 5 stig.

Vefur Veðurstofunnar

Færð á vegum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert