Hátt í fimm þúsund störf í orkufrekum iðnaði

Álverið í Reyðarfirði.
Álverið í Reyðarfirði.

Fastir starfsmenn í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og þremur álverum og á Íslandi eru tæplega 1600, þar af um 270 með háskólamenntun. Afleidd störf vegna þessara fjögurra verksmiðja eru talin vera um 3.100. Þetta kemur fram í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn Ármanns Kr. Ólafssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Ármann spurði Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra um hve mörg störf, bein og afleidd, væri talið að þyrfti miðað við hvert notað megavatt af rafmagni í álbræðslu, járnblendi, kísilvinnslu og við netþjónabú.

Ál er framleitt í þremur verksmiðjum hér á landi, álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík, sem framleiðir tæplega 184 þúsund tonn árlega, álveri Norðuráls á Grundartanga, sem framleiðir um 260 þúsund tonn árlega og álveri Fjarðaáls í Reyðarfirði, sem framleiðir um 346 þúsund tonn árlega, alls um 790 þúsund tonn á ári. Samtals þurfa álverin 1.387 MW til starfseminnar. Fastir starfsmenn í beinum störfum í álverunum eru 1.385, þar af um 230 með háskólamenntun. Afleidd störf eru talin vera að minnsta kosti 2.800, þannig að alls styðja um 4.185 ársverk álframleiðslu á Íslandi. Að jafnaði er fjöldi beinna starfa 1,0 á hvert MW en samanlögð störf, bein og afleidd, eru 3,0 á hvert MW.

Járnblendi er unnið í verksmiðju Elkem Íslandi ehf. á Grundartanga. Afurðirnar eru aðallega þrenns konar, kísiljárn, magnesíumblandað kísiljárn og kísilryk, samtals um 140 þúsund tonn á ári. Verksmiðjan þarf 120 MW rafafl til starfseminnar. Fastir starfsmenn í beinum störfum eru 200, þar af um 40 með háskólamenntun. Afleidd störf eru talin vera um 300, þannig að alls styðja 500 manns rekstur járnblendiverksmiðjunnar. Bein störf á hvert MW eru 1,7 og ef öll störf, bein og afleidd, eru talin eru störfin 4,2 á hvert MW.

Að minnsta kosti þrjú erlend fyrirtæki hafa sýnt því áhuga að framleiða hér bæði hefðbundinn kísilmálm og hreinkísil. Einn hefur þegar hætt við að fjárfesta en aflþörf þeirra tveggja sem eftir standa, væri um 160 MW og fjöldi beinna starfa gæti orðið 440, þar af 130 sem krefðust háskólamenntunar. Afleidd störf gætu orðið allt að 1055, eftir því sem kemur fram í svari iðnaðarráðherra.

Þá hafa a.m.k. tveir aðilar sýnt því áhuga að setja hér upp netþjónabú. Gagnaver á Suðvesturlandi sem nýtti allt að 25 MW rafafl í byrjun gæti þurft 30–60 fasta starfsmenn. Af þeim mundi helmingurinn eða allt að tveir þriðju starfsmanna þurfa að hafa háskóla- og fagskólamenntun. Reiknað er með að jafnmörg störf skapist við alls kyns þjónustustörf utan veggja gagnaversins. Um 60–120 störf mundu því tengjast þessum rekstri beint og óbeint. Fjöldi beinna starfa yrði 1,2–2,4 á hvert MW, en ef allt væri talið, bein störf og afleidd störf, eru störfin 2,4–4,8 á hvert MW. Þetta hlutfall kynni að breytast ef gagnaverið yrði stækkað.
Annar fjárfestir hefur sýnt áhuga á að reisa mörg gagnaver sem staðsett yrðu víða um landið. Hvert þeirra mundi þurfa 10–15 MW rafafl. Fjöldi beinna starfa í hverju gagnaveri er áætlaður 15–20 og af þeim mundu 7–10 krefjast háskólamenntunar. Reiknað er með að jafnmörg eða 15–20 afleidd störf skapist við alls kyns þjónustustörf utan veggja hvers gagnavers. Um 30–40 störf mundu því styðja þennan rekstur. Fjöldi beinna starfa yrði um 1,3–1,5 á hvert MW, en ef allt er talið, bein störf og afleidd, yrðu störfin 2,7–3,0 á hvert MW.

Svar iðnaðarráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert