Flugeldasalan hafin

Þekktir kappar úr Hjálparsveit skáta Reykjavík, þeir Örvar Aðalsteinsson og …
Þekktir kappar úr Hjálparsveit skáta Reykjavík, þeir Örvar Aðalsteinsson og Halldór Hreinsson að hjálpast að við uppsetningu á auglýsingarskilti fyrir flugeldasöluna mbl.is/Pétur

Flugeldamarkaðir björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru opnaðir í morgun en alls eru útsölustaðirnir 112 talsins um land allt. Að sögn Ólafar  Snæhólm Baldursdóttur, upplýsinga- og kynningafulltrúi SL, hefur verð á flugeldum hækkað á milli ára líkt og allt annað enda gengi krónunnar miklu lægra nú heldur en á sama tíma í fyrra. Hún segir að flugeldapöntun björgunarsveitanna hafi verið minnkuð í haust þegar niðursveiflan hófst. 

Ólöf vill ekkert spá um hvernig salan verður í ár en tvö undanfarin ár hafa verið algjör metár hvað varðar sölu á flugeldum á Íslandi.  Flugeldamarkaðir  björgunarsveitanna verða opnir daglega milli 9-22  næstu  þrjá daga en á gamlársdag  er lokað klukkan 16.

 Björgunarsveitirnar hófu að selja flugelda í fjáröflunarskyni í lok sjöunda áratugarins. Fyrst hófst flugeldasala í Reykjavík en fljótlega hófu björgunarsveitir um allt land að selja. Í dag, rúmum þrjátíu árum eftir að flugeldasala í fjáröflunarskyni hófst hjá björgunarsveitunum, er hún orðin mikilvægasta tekjulind þeirra. Án þess mikla stuðnings sem almenningur sýnir björgunarsveitunum með kaupum á flugeldum væri ekki hægt að halda úti því öfluga öryggisneti sem björgunarsveitirnar eru fyrir Íslendinga, að því er fram kemur á vef Landsbjargar. 

Sjá nánar um flugeldamarkaði björgunarsveitanna 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert