Gátu ekki tapað á samningunum

Einstaklingar sem voru í eigendahópi Kaupþings, eða félög á þeirra vegum, eru á meðal þeirra sem grunur er um að hafi hagnast á samningum sem bankinn gerði og eru taldir hafa fært völdum hópi vildarviðskiptavina gríðarlegan fjárhagslegan ávinning.

Um er að ræða nokkra samninga upp á nokkra tugi milljarða króna. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er heildarandvirði þeirra talið vera yfir 100 milljarðar króna.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra barst nafnlaus ábending um málið í gegnum millilið um miðjan desember. Í kjölfarið hófst athugun á málinu.

Efnahagsbrotadeildin hefur nú óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið (FME) taki málið til frekari skoðunar og kæri það aftur til baka ef rökstuddur grunur verður uppi um refsiverða háttsemi. Er það gert vegna þess að FME hefur fullan aðgang að bókhaldi gömlu bankanna.

Umræddir samningar eru taldir hafa tryggt lykilviðskiptamönnum og öðrum aðilum tengdum eigendahópi bankans verulegan ávinning sem hafi verið greiddur til þeirra. Heimildir Morgunblaðsins herma að samningarnir hafi verið þess eðlis að þeir sem gerðu þá gátu ekki tapað á þeim.

Grunur leikur á því að umrædd háttsemi geti talist vera umboðssvik eða jafnvel fjárdráttur. Refsing vegna slíkra brota getur verið allt að sex ára fangelsi. Verði niðurstaðan sú að háttsemin feli í sér refsilagabrot mun rannsókn málsins beinast jafnt að þeim sem gerðu samningana fyrir hönd Kaupþings og þeirra sem nutu ávinnings af þeim.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert