Rannveig Rist maður ársins hjá Frjálsri verslun

Rannveig Rist
Rannveig Rist

Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, er maður ársins 2008 í íslensku atvinnulífi, að mati dómnefndar Frjálsrar verslunar. Rannveig hlýtur þennan heiður fyrir mikla leiðtogahæfileika, hæfni við rekstur álversins í Straumsvík, farsælan feril, frumkvöðlastarf á sviði menntunar í stóriðju og forystu í málefnum kvenna í atvinnulífinu um langt skeið, að því er segir í tilkynningu.

„Rannveig hefur verið forstjóri álversins í Straumsvík í tólf ár og allan þann tíma hefur fyrirtækið verið rekið með hagnaði. Hún tók sig til síðastliðið vor, þegar henni hætti að lítast á blikuna í efnahagsmálum þjóðarinnar, og greiddi upp allar skuldir álversins. En álverið í Straumsvík er hlutafélag sem greiðir fyrir sínar framkvæmdir sjálft en færir ekki kostnaðinn yfir á móðurfélagið.

Alcan á Íslandi hf. hefur frá árinu 2007 verið í eigu Rio Tinto sem er stærsti álframleiðandi í heimi.

Rannveig er vélvirki, vélstjóri og vélaverkfræðingur. Hún er brautryðjandi og gerði innrás í karlaveldið þegar hún tók vélstjórapróf 4. stigs frá Vélskóla Íslands og síðar sveinspróf í vélvirkjun og varð þar með vélfræðingur. Þá var hún með fyrstu konum sem varð vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er fyrst kvenna til að gegna forstjórastarfi í stórfyrirtæki á Íslandi.

Þetta ár er sögulegt fyrir áliðnaðinn. Í fyrsta sinn eru áætlaðar útflutningstekjur af áli meiri en af fiski á þessu ári.

Margir kynnu að halda að álverið í Straumsvík framleiddi jú bara ál – en það framleiðir 200 vörutegundir af áli og fyrir vikið er framleiðsluferlið í Straumsvík með því flóknasta sem þekkist í álverksmiðjum í heiminum og krefst mikillar skipulagningar.

Rannveig hóf störf hjá álverinu sem yfirmaður öryggis- og gæðamála árið 1990. Hún var ráðin forstjóri árið 1997. Hún er þriðji forstjóri álversins. Hún tók við forstjórastarfinu af Christan Roth en á undan honum var Ragnar Halldórsson forstjóri, að því er segir í tilkynningu.

Verðlaunin verða afhent formlega klukkan 16:00 í dag í veislu sem Frjáls verslun heldur Rannveigu til heiðurs á Hótel Sögu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert