Blóðsúthellingum á Gaza mótmælt

Árásum Ísraela hefur verið mótmælt víða um heim.
Árásum Ísraela hefur verið mótmælt víða um heim. Reuters

Útifundur til að mótmæla blóðsúthellingunum á Gaza verður haldinn á Lækjartorgi í dag kl. 16. Kröfur dagsins eru: Stöðvið fjöldamorð  Ísraelshers á Gaza. Slítum stjórnmálasambandi við Ísrael. Meðal ræðumanna er Ögmundur Jónasson formaður BSRB og fundarstjóri er Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.

Aðrir ræðumenn eru María S. Gunnarsdóttir, formaður Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna og Sr. Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur.

Fundurinn er undirbúinn af Félaginu Ísland-Palestína með stuðningi fjölmargra félagasamtaka, að því er segir í tilkynningu.

Ung vinstri græn hafa sent frá sér ályktun þar sem samtökin fordæma grimmdarverk Ísraelsríkis gagnvart palestínsku þjóðinni og taka undir kröfu félagsins Íslands-Palestínu um að öllum stjórnmálasamskiptum Íslands við Ísraelsríkis verði hætt þar til það lætur af grimmdarverkum sínum.

„Ung vinstri græn telja að aðgerðir Ísraelsstjórnar kalli á alþjóðlegt viðskiptabann líkt og komið var á gagnvart Suður-Afríku þegar aðskilnaðarstefnan var þar við líði. Stefna Ísraelsríkis gagnvart palestínsku þjóðinni er enda ekkert annað en aðskilnaðarstefna, og raunar mun harkalegri og ofbeldisfyllri en sú sem rekin var í Suður-Afríku. Með alþjóðlegu viðskiptabanni yrði með friðsamlegum hætti settur þrýstingur á Ísraelsríki um að virða mannréttindi palestínsku þjóðarinnar. Ung vinstri græn hvetja íslensku ríkisstjórnina til að beita sér fyrir slíku viðskiptabanni."


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert