Spyr ráðherra hvað vistmenn hafi gert af sér

„Hvað hafa vistmenn Seli sér til saka unnið að það sé svona komið fram við þá?“ spyr aðstandandi vistmanns á Seli í opnu bréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra.

Ákveðið hefur verið að loka hjúkrunarheimilinu Seli við Akureyri í sparnaðarskyni og verða aldraðir íbúar Sels fluttir innan fárra daga á Kristnesspítala. Flestir fara úr einbýli í fjölbýli og óttast aðstandendur að flutningarnir verðir þeim ofviða. Áætlaður sparnaður vegna lokunarinnar er um 100 milljónir króna. Á Seli dvelja 11 aldraðir Akureyringar, í einbýli með persónulega muni en verða allir fluttir á Kristnesspítala í Eyjafjarðarsveit og í tvíbýli.

Aðstandandi íbúa á Seli, Sólrún Stefanía Benjamínsdóttir sendir félags- og tryggingamálaráðherra opið bréf og biður hana að bjarga hjúkrunarheimilinu Seli. Bréfritari segist hafa sent samskonar bréf fyrir jólin en ekkert svar hafi fengist frá ráðherra.

„Í ummælum þínum á Alþingi hefur þú margoft sagt og barið í borðið að aldraðir og öryrkjar væru í fyrirrúmi og ekki yrði skorið niður í þínu ráðuneyti varðandi þá. En nú spyr ég:  Á þetta bara við aldraða og öryrkja í Reykjavík??  Hvernig er með landsbyggðina s.s. Akureyri??,“ spyr bréfritari.

Hún spyr ennfremur hvort ekki megi lækka laun stjórnenda FSA eins og annarra stjórnenda.

„Ég veit að Akureyrarbær bauðst til að taka yfir reksturinn á Seli og leggja fram tiltekna upphæð en með nýju fjáraukalögunum fóruð þið fram á að sú upphæð yrði tvöfölduð og því miður þá ræður bærinn ekki við það en á sama tíma er Reykjavíkurborg að taka yfir samskonar rekstur og fær til þess fjárframlög frá ykkur. Þetta tel ég mismunun á aðstöðu aldraðra og það er til háborinnar skammar,“ segir Sólrún Stefanía Benjamínsdóttir í opnu bréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert