Styrmir: Vill skera niður í utanríkisþjónustunni

Styrmir Gunnarsson.
Styrmir Gunnarsson. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir í grein á Evrópuvef Sjálfstæðisflokksins, að utanríkisþjónusta Íslands hafi þanist út á undanförnum árum langt umfram það, sem hagsmunir okkar krefjist. „Sú útþensla hefur verið hluti af þeim stórveldaleik smáþjóðar, sem forseti okkar og núverandi utanríkisráðherra hafa stundað. Nú er kominn tími til að skera hana verulega niður, fækka sendiráðum og starfsmönnum."

Vill auka tengslin við Þýskaland og Noreg

Styrmir telur að Ísland eigi að auka samskiptin við Þýskaland og Noreg. „Þýzkaland er lang öflugasta ríkið innan ESB. Svo vill til að Þjóðverjar og raunar þýzkumælandi þjóðar hafa sterkar taugar til Íslands vegna sameiginlegrar menningararfleifðar.

Áhugi Þjóðverja á Íslandi og íslenzkri menningu blasir við. Þegar ég fór fyrst að ferðast um óbyggðir Íslands fyrir bráðum 40 árum var algengasta tungumálið á hálendinu að sumarlagi þýzka en ekki íslenzka. Á 20. öldinni tóku Þjóðverjar íslenzkum skáldum, rithöfundum, tónskáldum og tónlistarmönnum opnum örmum og gera enn. Fjölmargir Íslendingar hafa sótt háskólanám til Þýzkalands bæði fyrr og nú.

Mín skoðun er sú, að grundvallarþáttur í þeirri utanríkispólitík 21. aldarinnar, sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins þarf að marka í skýrum dráttum eigi að vera náin pólitísk tengsl við Þýzkaland. Með því tryggjum við bezt, að á okkur verði hlustað innan Evrópusambandsins, þegar við þurfum á að halda. Ingimundur Sigfússon, sem var sendiherra okkar í sameinuðu Þýzkalandi með aðsetri í Berlín vann einstakt afrek við að byggja upp sambönd og tengsl við æðstu ráðamenn í Þýzkalandi á sendiherraárum sínum, auk þess að rækta samskipti við bæði menningarlíf og viðskiptaheiminn. Við eigum að líta á sendiráð okkar í Berlín, sem eina helztu þungamiðju utanríkisþjónustu okkar, manna það vel og gæta þess að senda einungis þýzkumælandi sendiherra til Berlínar."

„Annar meginþáttur í endurnýjaðri utanríkispólitík Sjálfstæðisflokksins á að mínu mati að vera stóraukin áherzla á samskiptin við Norðmenn. Þau eru að sjálfsögðu mikil fyrir en geta orðið meiri og nánari. Norðmenn og Íslendingar eiga mikilla hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafi. Í sumum tilvikum fara hagsmunir okkar saman.

Í öðrum tilvikum rekast þeir á. Þessar tvær þjóðir hafa sameiginlega hagsmuni af því að öryggi þjóða, sem búa við Norður-Atlantshaf sé tryggt. Í þeim efnum hefur gengið á ýmsu frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari. Nú ríkir óvissa um stöðu mála á norðurslóðum. Markmið Rússa eru óljós. Ekki fer á milli mála, að þeir vinna markvisst að því að auka heimspólitísk áhrif sín á nýjan leik eins og skýrt kom í ljós í litla stríðinu í Georgíu fyrir nokkrum mánuðum. En til hvers?"

Geir og Davíð lítið hrifnir af framboði til Öryggisráðs

Styrmir fjallar um framboð Íslands að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í grein sinni. Segir hann að einhverjir telji að hugmyndin hafi vaknað í utanríkisráðherratíð Geirs Hallgrímssonar á árunum 1983 til 1986.

„Hún var hins vegar tekin upp af mikilli alvöru í utanríkisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar. Ég held, að hvorki Davíð Oddsson né Geir H. Haarde hafi verið ýkja hrifnir af þessu framtaki en báðir létu kyrrt liggja og stöðvuðu málið ekki meðan þeir hvor um sig gegndu embætti utanríkisráðherra. Það má gagnrýna þá fyrir það.

Ingibjörg Sólrún gerði þetta að einu aðalmáli sínu í utanríkisráðuneytinu. Þeim, sem til þekkja var ljóst, að eftirsókn eftir sæti í Öryggisráðinu mundi kosta mikla fjármuni, baráttan væri að mörgu leyti ógeðsleg vegna mútustarfsemi einstakra ríkja í því skyni að afla atkvæða, ekkert væri að marka loforð um stuðning og næðum við kjöri mundi það skapa okkur mikil pólitísk vandamál. Rússneskur sendiherra, sem hér var fyrir nokkrum árum sagði við mig, að næði Ísland kjöri í Öryggisráðið yrði litið svo á, að Bandaríkjamenn hefðu tvö atkvæði á þeim vettvangi."

Grein Styrmis Gunnarssonar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert