Verða að spara í skólunum

mbl.is/Sverrir

Gert er ráð fyrir 870 milljóna króna hagræðingu hjá menntasviði Reykjavíkur í fjárhagsáætlun borgarinnar. Hækka útgjöld til þessa málaflokks úr 16,8 milljörðum króna í 17,6 milljarða.

„Þó að þetta sé hækkun í sjálfu sér er hún tilkomin vegna umsaminna launahækkana og hefði því orðið meiri við betri aðstæður,“ segir Kjartan Magnússon, formaður menntasviðs.

Borgaryfirvöld hafi enda farið í heilmikla hagræðingu.

„Við byrjuðum að skoða alla starfsemi skólanna og litum fyrst og fremst til lögboðinnar starfsemi þeirra.“ Áhersla væri lögð á að halda lögboðinni þjónustu, sem og annarri grunnþjónustu, auk þess að verja störf fastráðinna starfsmanna borgarinnar eins og kostur væri. Ekki lægi hins vegar fyrir hvort breyting kynni að verða á högum lausráðinna starfsmanna skólanna í haust.

Kjartan telur þó ólíklegt að fög muni falla niður í neinum skólum, en gert sé ráð fyrir umtalsverðum samdrætti í innkaupum á búnaði.

„Þetta er liður sem mjög sárt er að skera niður í, en það verður hins vegar að horfa til þess að á bak við hann eru ekki nein bein störf. Skólastarfið sjálft verður ekki fyrir neinum skakkaföllum þó að því sé frestað að kaupa nýjar græjur í eitt ár.“

Útgjöld vegna símenntunar lækka þá úr 61 milljón niður í 38 milljónir og gert er ráð fyrir lækkun rekstrarkostnaðar á öllum sviðum sem og lægri útgjöldum til stjórnunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert