Streita lögreglumanna landshlutatengd

mbl.is/Júlíus

Lögreglumenn á landsbyggðinni eru örlítið hamingjusamari en þeir sem starfa á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu stressaðri, þunglyndari og kvíðnari en þátttakendur á landsbyggðinni. Þetta er meðal þess sem lesa má út úr nýlegri könnun ríkislögreglustjóra á streitu og líðan lögreglumanna.

Ríkislögreglustjóri hefur birt niðurstöður könnunar á streitu og líðan lögreglumanna sem gerð var á síðasta ári. Markmið könnunarinnar var að ná fram eins konar grunnmati á verkefnatengdri og stjórnsýslulegri streitu hjá lögreglumönnum. Að auki var ákveðið að meta kvíða- og depurðareinkenni hjá lögregluönnum en einnig lífsánægju.

Könnunin er sú fyrsta sem gerð hefur verið í þessari mynd en hún byggir á kanadískri rannsókn, þar sem í fyrsta sinn var hannaður spurningalisti til að meta bæði verkefnatengda og stjórnsýslulega þætti. Með verkefnatengdum þáttum er átt við vaktavinnu, kröfu um yfirvinnu, neikvæðar athugasemdir frá almenningi og að eignast vini utan lögreglunnar, svo dæmi séu tekin. Með stjórnsýslulegum þáttum er til dæmis átt við að eiga samskipti við starfsfélaga, skort á starfsfólki, of mikla tölvuvinnu og ósamkvæman stjórnunarstíl.

Þátttakendur voru 307 lögreglumenn á öllu landinu fyrir utan Suðurnes og Vestmannaeyjar. Þátttakendur svöruðu spurningalistanum í vinnutíma sínum í febrúar og mars 2008.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru þær að meðaltal fyrir stjórnsýslulega og verkefnatengda streitu var lítillega lægra en hjá viðmiðunarhópi sem samanstóð af 197 kanadískum lögreglumönnum. Streituþættirnir tveir virðast hafa jafnmikil áhrif á þátttakendur.

Þegar starfssvið er skoðað kemur hinsvegar fram að þeir sem sinna almennri löggæslu finna fyrir meiri verkefnatengdri streitu en aðrir.

Þegar munur milli þátttakenda af landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu (LRH og RLS) er skoðaður, kemur fram að þátttakendur á höfuðborgarsvæðinu voru stressaðri, þunglyndari og kvíðnari en þátttakendur á landsbyggðinni.

Lögreglumenn á landsbyggðinni eru örlítið hamingjusamari en þeir sem starfa á höfuðborgarsvæðinu.

Þeir sem hafa lokið námi við Lögregluskólann eru stressaðri, þunglyndari og kvíðnari en hinir. Þetta gæti stafað af aukinni ábyrgð sem menntaðir lögreglumenn hafa umfram ófaglærða.

Verkefnatengd streita, þunglyndi og kvíði, virðast almennt aukast örlítið eftir því sem þátttakendur hafa unnið lengur en svo draga aftur úr þessum þáttum þegar komið er að reyndustu lögreglumönnunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert