Erlendir bankar með veð í kvóta

mbl.is

Forráðamenn Nýja Glitnis hafa lofað því að standa við bakið á Þorbirni í Grindavík ef fyrirtækið lendir í vandræðum vegna þess að Deutsche Bank er farinn að innheimta greiðslur af lánum sem eru með veði í kvóta fyrirtækisins. Þetta segir Eiríkur Tómasson hjá Þorbirni.

„Ég hef því ekki miklar áhyggjur af þessu en mér finnst leitt að menn standi ekki við það sem þeir hafa sagt,“ sagði Eiríkur í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Stöð tvö greindi frá því í gær að Glitnir hefði fært veð í kvóta nokkurra stærstu útgerða landsins í hendur erlendra banka síðastliðið sumar, samtals að verðmæti á þriðja tug milljarða króna. Þetta hefði verið gert þannig að bankinn hefði búið til svokallaðan skuldabréfavafning upp á eitt hundrað milljarða og flutt veð margra viðskiptavina sinna í því skyni yfir á félag sem heitir Haf Funding. Það hefði verið lagt fram sem trygging gegn erlendu láni. Sagði Eiríkur í samtali við Stöð tvö að Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, og Lárus Welding, forstjóri bankans, hefðu lofað því að þetta kæmist ekki í hendur erlends aðila. Eiríkur tekur fram að hann viti ekki hver eigi félagið Haf Funding, en ljóst sé að Deutsche Bank sé umsjónaraðili þess.

Þorsteinn Már sagðist í gærkvöldi ekki vilja tjá sig um þetta mál á þessari stundu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert