Guðjón Arnar nýr ræðukóngur

Guðjón Arnar Kristjánsson
Guðjón Arnar Kristjánsson mbl.is/Ásdís

Alþingi kemur saman að nýju eftir jólafrí 20. janúar nk. og eru þingmenn væntanlega að safna kröftum fyrir vorþingið.

Á haustþinginu, sem lauk skömmu fyrir jól, var krýndur nýr ræðukóngur, Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins. Guðjón talaði samtals í 541 mínútu á haustþinginu. Á þingunum þar á undan höfðu Steingrímur J. Sigfússon og Jón Bjarnason, þingmenn Vinstri grænna, skipst á að vera ræðukóngar.

Næstur Guðjóni kemur flokksfélagi hans Jón Magnússon, sem talaði í 515 mínútur. Í næstu sætum þar á eftir koma Steingrímur J. Sigfússon, Álfheiður Ingadóttir og Jón Bjarnason, þingmenn VG. Þau töluðu öll lengur en 400 mínútur. Skammt undan eru tveir þingmenn Vinstri grænna, Árni Þór Sigurðsson og Ögmundur Jónasson.

Sá þingmaður sem talaði styst var Einar Már Sigurðarson, Samfylkingu. Hann tók sjö sinnum til máls og talaði samtals í 3 mínútur, og hefur því nýtt ræðutíma sinn vel. Aðrir þingmenn sem töluðu í 30 mínútur eða skemur voru sjálfstæðismennirnir Arnbjörg Sigurðardóttir, Herdís Þórðardóttir, Illugi Gunnarsson og Kjartan Ólafsson svo og Katrín Júlíusdóttir, Samfylkingu.

Skemmst allra á haustþinginu talaði Sigríður Á. Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hún tók einu sinni til máls og talaði í eina mínútu. Kristrún Heimisdóttir varaþingmaður Samfylkingar talaði í 6 mínútur og Róbert Marshall varaþingmaður sama flokks, talaði í 9 mínútur.

Þegar lagður er saman fjöldi ræðna og fjöldi athugasemda sem þingmenn gera við ræður annarra þingmanna hefur Álfheiður Ingadóttir vinninginn. Hún fór alls 150 sinnum í ræðustólinn, flutti 74 ræður og gerði 76 athugasemdir.

Af ráðherrum ríkisstjórnarinnar talaði Geir H. Harde forsætisráðherra lengst og mest enda bankahrunið mikið til umræðu á haustþinginu. Geir flutti 60 ræður og talaði í 217 mínútur. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, talaði styst eða í 41 mínútu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert