Neyðarsöfnun fyrir Gaza

Palestínsk fjölskylda flytur eigur sínar á hestvagni úr rústum heimilis …
Palestínsk fjölskylda flytur eigur sínar á hestvagni úr rústum heimilis síns á Gaza-svæðinu. Reuters

Félagið Ísland-Palestína hefur hafið neyðarsöfnun til kaupa á nauðsynlegum læknisbúnaði sem sjúkrahús á Gaza-svæðinu hafa óskað eftir vegna mannskæðra árása Ísraelshers.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu Ísland-Palestína:

„Heimurinn horfir nú upp á grimmúðleg illvirki Ísraelshers sem beitir til þess bandarískum vígbúnaði og hernaðartækni. Með ofurefli er níðst á varnarlausum palestínskum íbúum eins þéttbýlasta svæðis heims, sem eru lokaðir inni og geta hvergi flúið af svæðinu sem breytt hefur verið í risafangelsi. Helmingur íbúanna á Gaza eða 750 þúsund manns eru undir 14 ára aldri. Yfir helmingur íbúanna eru flóttamenn, sem þrátt fyrir ályktanir Sameinuðu þjóðanna hefur verið neitað um þann rétt sinn að fá að snúa aftur til heimalands síns í áratugi af ísraelskum yfirvöldum.

Frá því að innrás Ísraelshers hófst á Gaza 27. desember hafa um 800 Palestínumenn verið drepnir, þar af um 300 börn! Meira en 3.000 manns hafa særst og hundruð fleiri þurfa á læknisaðstoð að halda. Heilbrigðiskerfið, sem var fyrir innrásina búið að hljóta ómældan skaða vegna 18 mánaða umsáturs Ísraela um Gaza, hefur ekki tök á að sinna særðum og slösuðum. Fregnir berast af því að læknar neyðist til að forgangsraða læknisþjónustu og framkvæma aðgerðir án nauðsynlegra áhalda og lyfja.

Félaginu hefur borist neyðarbeiðni frá ísraelsku samtökunum Physicians for Human Rights þar sem beðið er um aðstoð við kaup á þeim nauðsynjum sem spítalar á Gaza hafa óskað eftir, svo sem lyfjum, rúmum, súrefni og sótthreinsuðum áhöldum.

Félagið Ísland-Palestína hefur ákveðið að verða við þeirri beiðni og beinir því neyðarsöfnun sinni að því að styrkja PHR til kaupa á nauðsynlegum læknisbúnaði og hefur nú þegar sent $2.000 sem söfnuðust á útifundi 30. desember síðastliðinn. Þeir sem vilja leggja söfnunni lið er bent á reikning neyðarsöfnunarinnar: 0542-26-6990, kt. 520188-1349, merkt "PHR-Gaza"

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert