Eiríkur Tómasson: Blekktu eigendur bankanna starfsfólk sitt?

Hvöttu eigendur stóru viðskiptabankanna starfsfólk sitt vísvitandi til þess að selja útflutningsatvinnuvegunum og lífeyrissjóðum í landinu gjaldeyrisskiptasamninga, þar sem staða var tekin með með krónunni? Þetta kemur fram á vef LÍÚ.

„Unnu þeir svo sjálfir að því að fella gengi krónunnar með verulegum hagnaði og vógu þannig að sjávarútvegsfyrirtækjum, lífeyrissjóðunum og íslensku þjóðinni um leið?"

Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. í Grindavík og varaformaður LÍÚ, velti þessum spurningum og fleiri upp í ræðu á fundi auðlindahóps Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í gær. Hann sagði það víðtæka skoðun þeirra sem gerðu þessa samninga við bankana, sem allir urðu fjármálakreppunni að bráð, að þar hefði verið „maðkur í mysunni.“

Eiríkur sagði ennfremur, að því er segir á vef LÍÚ: „Það hefur verið rætt mikið um gjaldmiðlaskiptasamninga og afleiður undanfarið. Þeir sem hafa gert slíka samninga við gömlu bankana standa nú frammi fyrir því að möguleikar bankanna til að standa við samningana urðu að engu þegar þeir féllu í valinn. Sú skoðun er uppi meðal margra að þar með eigi þessir samningar að falla niður.“

Eiríkur sagði grunsemdir þeirra, sem hefðu efast um heilindi bankanna loks hafa fengið byr undir báða vængi „þegar þeir lásu frétt um að Kjalar hf. sem sagður er hafa átt 10% í Kaupþingi, geri kröfur um að fá stöður sínar gegn krónunni greiddar út hjá Kaupþingi. Í dag kemur sambærileg frétt um Exista, annan eigenda í Kaupþingi. Er hægt að kalla þessi vinnubrögð „svikamyllu?“ spurði Eiríkur undir lok ræðu sinnar í gær.

Eiríkur Tómasson
Eiríkur Tómasson mbl.is/Helgi Bjarnason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert