Tryggvi hafði bein afskipti

Tryggvi Jónsson.
Tryggvi Jónsson. mbl.is/G.Rúnar

Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, hafði bein afskipti af sölum á tveimur fyrirtækjum til fyrirtækja tengdum Baugi á meðan hann starfaði í Landsbankanum. Þetta kom fram í sjónvarpsfréttum RÚV.

Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV hafði Tryggvi milligöngu um að Hagar kæmu með tilboð í þrotabú BT, eftir að eigandi þess, Árdegi, varð gjaldþrota. Landsbankinn samþykkti tilboðið fyrir sitt leyti en með fyrirvara um samþykki skiptastjóra. Þá á Tryggvi að hafa haft bein afskipti af sölu annars dótturfélags Árdegis, Skífunnar, til Senu, dótturfyrirtækis 365. Hann hafi komið á fundum milli manna, séð um að útvega gögn og aðstoðað við tilboðsgerð. Landsbankinn fjármagnaði kaupin fyrir 365.

Tryggvi sagði í samtali við mbl.is þann 16. desember sl., að hann hafi aldrei komið nálægt einu eða neinu sem tengist Baugi í störfum sínum hjá Landsbankanum. Orðrétt sagði Tryggvi: „Og bara til að undirstrika það, svo það sé algjörlega á hreinu, þá hef ég aldrei komið nálægt einu eða neinu sem tengist Baugi hérna innandyra.“

Tryggvi sendi frá sér tilkynningu í kvöld þar sem fram kemur að hann hafi verið í samskiptum við Árdegi ásamt öðrum starfsmönnum Landsbankans. Hans eina hlutverk hafi þó verið að koma á fundum milli forsvarsmanna Árdegis og þeirra sem þeir [hjá Árdegi] töldu hugsanlega kaupendur.  Í framhaldinu hafi Árdegi og Sena átt viðræður um Skífuna, sem lauk með samningi þeirra á milli.

„Eins og komið hefur fram í fréttum gerðu Hagar samning við bústjóra þrotabús BT tölva um þau kaup, en keyptu ekki af Árdegi og kom Landsbankinn ekki að þeirri sölu. Ég átti hvorki hugmyndina að því að koma Senu og Högum að samningaborðinu né kom ég að fjármögnun eða kaupsamningum í þessum viðskiptum,“ segir í tilkynningu Tryggva Jónssonar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert