Mikill hraði á breytingum á heilbrigðisþjónustunni

mbl.is/Ómar

Matthías Halldórsson landlæknir segir mikinn hraða vera á sumum þeim breytingum sem boðaðar hafa verið á heilbrigðisþjónustunni, þótt aðrar hafi átt sér lengri aðdraganda. Embættið hafi orðið vart við kvartanir frá heilbrigðisstarfsfólki yfir vinnuhraða málsins og litlu samráði. Á móti bendir hann á að breytingarnar komi fram við mjög erfiðar aðstæður og nauðsynlegt sé að spara og hagræða á þessu sviði sem öðrum.

„Landlæknisembættið hefur lýst því yfir að áherslu beri að leggja á að hlífa þeirri þjónustu sem líklegt er að verði fyrir mestu álagi vegna kreppunnar,“ segir Matthías og vísar þar t.d. til almennrar heilsugæslu og þjónustu á geðsviði, sem og þjónustu við eldra fólk og þá sem eiga erfitt með að tala sínu máli.

Embætti landlæknis veitti heilbrigðisráðuneytinu umsögn um nokkrar þær breytingar sem boðaðar hafa verið á heilbrigðisþjónustunni, m.a. breytingar á skurðlæknisþjónustu í Keflavík og á Selfossi. Varðandi ákvörðun um að leggja niður St. Jósefsspítala í Hafnarfirði í núverandi mynd segir landlæknir að embættið hafi ekki verið með í ráðum um þær breytingar, en fengið vitneskju um þær nokkru áður.

„Okkur var sagt að þannig yrði þetta, og við vonumst til að einhver sparnaður verði af þessu. Ég hef reyndar ekki séð þá útreikninga og á erfitt með að sjá hver sá sparnaður yrði. Það þarf ríkar ástæður til að splundra hópi sem allt bendir til að vinni faglega og góða vinnu á sínu sviði. Maður er því dálítið hugsi yfir þessu þó að við getum ekki beinlínis verið á móti því, þar sem talað er um að veita sömu þjónustu annars staðar.“

Varðandi breytta skurðstofuþjónustu í Keflavík og á Selfossi leitaði landlæknisembættið álits hjá yfirmönnum viðkomandi stofnana, sem og hjá Landspítalanum. „Faglega séð teljum við það ekki vera til hins verra þótt vaktþjónusta sé lögð af á skurðstofunum. Samgöngur eru orðnar greiðar á milli og hægt að flytja fólk snögglega yfir á þá staði þar sem besta þjónustan býðst. Við gerðum því ekki athugasemdir við þennan þátt,“ segir Matthías.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert