Uppgjör þarf að fara fram

Reuters

Einar Kr. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, útilokar ekki lengur að látið verði reyna á aðildarviðræður við ESB.

„Eins og þessi mál blasa við mér þá virðist Evrópuumræðan komin í sjálfheldu,“ segir hann. „Umræðan hefur verið mikil án þess að það hafi leitt til endanlegrar niðurstöðu. Ég held að það sé mikilvægt að finna leið út úr þessu öngstræti.

Nú er svo komið að ég vil ekki lengur útiloka þann kost að láta reyna á möguleika okkar með viðræðum við ESB. Það er hins vegar alveg ljóst í mínum huga að samningar sem aðrar þjóðir hafa náð, til að mynda í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, skila alls ekki niðurstöðu sem við getum unað. Þess vegna verðum við að setja okkur háleitari markmið en til dæmis Norðmenn náðu í sjávarútvegi og Finnar í landbúnaði.“

Hann segir vilja þjóðarinnar að Íslendingar hafi óskorað forræði yfir sínum auðlindum. „Það þýðir að við föllumst ekki á meginatriði sjávarútvegsstefnu ESB og það á að vera útgangspunktur í viðræðunum.“

Hann segir að uppgjörið verði að fara fram og að þetta séu eðlileg markmið. „Við viljum hvorki missa forræði yfir fiskveiðiauðlindinni né setja landbúnaðinn á hliðina. Ég tel líka útilokað fyrir stjórnvöld að snúa til baka frá viðræðum við ESB með samning sem ekki fæli í sér óskorað forræði yfir auðlindinni og að hagsmunum landbúnaðarins yrði borgið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert