Atvinnuleysi 4,8% í desember

Atvinnuleysi í desember mældist 4,8%.
Atvinnuleysi í desember mældist 4,8%.

Skráð atvinnuleysi í desember 2008 var 4,8% eða að meðaltali 7902 manns og jókst atvinnuleysi um 45% að meðaltali frá nóvember samkvæmt tölum, sem Vinnumálastofnun birti í dag. Hefur  atvinnuleysi ekki verið jafn mikið frá því í janúar árið 1997.

Á sama tíma á árinu 2007 var atvinnuleysi 0,8%, eða 1357 manns. Vinnumálastofnun segir, líklegt  að atvinnuleysið í janúar 2009 muni aukast verulega og verða á bilinu 6,4% ‐ 6,9%.

Atvinnuleysi í desember var mest á Suðurnesjum, 9,7% en minnst á Vestfjörðum, 1%. Atvinnuleysi jókst um 46% á höfuðborgarsvæðinu og um 44% á landsbyggðinni. Atvinnuleysi jókst mun meira meðal karla eða um 56% en um 29% meðal kvenna. Ástæða þess er m.a. meiri samdráttur í greinum sem karlar starfa í t.d. í byggingariðnaði.

Þeir sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði voru 700 í lok desember en 610 í lok nóvember. Alls höfðu 255 verið atvinnulausir lengur en eitt ár í desember sem er svipað og í lok nóvember. Vinnumálastofnun segir, að þegar atvinnuleysi aukist eins mikið og nú sé mesta aukningin meðal þeirra sem hafi verið atvinnulausir í nokkrar vikur og mánuði.

Atvinnuleysi ungs fólks hefur aukist meira en þeirra eldri og hefur 16‐24 ára atvinnulausum fjölgað úr 1.408 í lok nóvember í 2.069 í lok desember og eru þeir um 23% allra atvinnulausra í desember.

Skýrsla Vinnumálastofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert