Bjóðast til að greiða skaða Stöðvar 2

Frá mótmælum við Hótel Borg á gamlársdag
Frá mótmælum við Hótel Borg á gamlársdag mbl.is/Júlíus

Mótmælendur fyrir utan Hótel Borg á gamlársdag hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir bjóðast til að safna fé upp í skaðann á tækjabúnaði Stöðvar 2. Þeir óska eftir upplýsingum um það sem skemmt var frá óháðum aðila.

„Í tengslum við yfirlýsingar Ara Edwald og Sigmundar Ernis um skemmdarverk á tækjabúnaði Stöðvar 2 viljum við sem ábyrgir mótmælendur þennan dag bjóðast til að safna fé upp í skaðann á tækjabúnaði stöðvarinnar. Við óskum eftir upplýsingum um það sem skemmt var frá óháðum aðila.

Við vitum að við getum ekki bætt tilfinningalegt uppnám þeirra félaga né teljum þörf á því vegna fullrar vitneskju þeirra um að mótmælt yrði af krafti, en hörmum innilega áverka  tæknimannsins.

Við komum ekki til mótmælanna með því hugarfari að valda skaða, enda gerðum við það ekki, heldur til að láta skoðun okkar í ljós og mótmæla því að formenn flokkanna telji mun mikilvægara að mæta í froðukenndan skemmtiþátt og koma enn og aftur með sömu efnislausu setningarnar  yfir kampavíni og síld fremur en að upplýsa þjóðina af heiðarleika og tæpitungulaust um raunverulegt ástand landsins og skuldahalann, sem börn og barnabörn munu erfa.

            Við viljum svo bæta því við að lokum, að það vekur furðu okkar að Ari Edwald telji sig hafa það vald að geta sagt lögreglu okkar til um hvernig hún eigi að haga störfum sínum.

Fyrir hönd ábyrgra mótmælenda,

Björg Sigurðardóttir

Gunnar Gunnarsson

Agnar Kr. Þorsteinsson"

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert