Huginn VE með fyrsta Gulldeplufarminn

Norræn gulldepla eða laxsíld
Norræn gulldepla eða laxsíld mbl.is/sigurgeir

Huginn VE-55 landaði í gærkvöld fyrsta farminum af norrænni gulldeplu eða laxsíld í Vestmannaeyjum. Huginn kom með um 800 tonn af gulldeplu sem fengust á Grindavíkurdýpi.

Norræn gulldepla smár fiskur og er latneska heiti hans Maurolicus mulleri. Lítið er vitað um fiskinn hér við land en hann er svokallaður miðsjávarfiskur, sem heldur sig á 100 til 200 metra dýpi á nóttunni en 200 til 500 metra dýpi á daginn. Fiskurinn finnst hringinn í kringum landið en ekki er vitað til þess að veiðar hafi verið reyndar áður á gulldeplunni.

„Þeir voru einhverja fimm daga að ná þessum 800 tonnum. Þetta er annar túrinn sem farinn er í tilraunaskyni en eftir fyrri túrinn fengu þeir sýnishorn, kringum 50 tonn. Tæknin við veiðar á gulldeplu er frábrugðin því sem almennt gerist við veiðar á uppsjávarfiski og veiðarfærin eru önnur. Gulldeplan er svo smá að það er torveldara að ná henni,“ segir Páll Þór Guðmundson, útgerðarstjóri Hugins VE.

Eins og áður segir er gulldeplan afar smár fiskur, aðeins um sex til sjö sentímetra langur, silfraður að lit og með mikið fituinnihald. Aflinn fer í bræðslu.

„Þetta er fyrsti alvöru farmurinn og við vitum í raun ekki hvað fæst fyrir mjölið. Við eigum eftir að sjá innihaldið en þá fyrst sjáum við verðmætin,“ segir Páll Þór Guðmundson.

Huginn VE heldur til veiða á ný í kvöld en fleiri uppsjávarskip undirbúa veiðar á gulldeplu.

mbl.is/Sigurgeir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert