Táknmynd góðæris eða kreppu

Háhýsin sem áttu að bera stórhug og góðæri í efnahagslífinu vitni eru nú minnisvarði og kannski um eitthvað allt annað.

Hálfkláraðar byggingar og iðjulausir byggingakranar setja svip sinn á Reykjavík kreppunnar. Við Höfðatún, skammt frá Höfða, er risastór hálfkláraður turn, sem gnauðar í þegar vindurinn blæs. Íbúar í túnunum mótmæltu á sínum tíma harðlega turninum og öðrum háhýsum sem átti að reisa á sama reit en byggingarnar voru í hrópandi ósamræmi við gamlar klassískar bogadregnar byggingar sem sumar þurftu að víkja.

Hjálmar Sveinsson útvarpsmaður vinnur nú að bók um ferilinn allan sem hann segir lýsandi fyrir byggingasögu góðærisins. Um 1999 þegar borgin auglýsti nýtt skipulag á lóð gömlu Vélsmiðjunnar átti að vera þar lágreist íbúðahverfi.  Eftir að byggingafélagið Eykt keypti reitinn settu talsmenn þess hinsvegar fljótlega fram hugmyndir um mun stærri byggingar, þar á meðal sextán hæða turn. Árið 2006 þegar ný borgarstjórn tekur við er gefið í og byggingafélagið vill þá reisa þrjá turna, nítján hæða sextán hæða og tólf hæða, auk  annars skrifstofuhúsnæðis.

Turnarnir og stórhýsin áttu að vera atvinnu og skrifstofuhúsnæði fyrir eignarhaldsfélög og fjármálafyrirtæki. Síðan komu fram hugmyndir um risastóran bílakjallara og kvikmyndahús og síðast en ekki síst stórt torg að ítalskri fyrirmynd, þar sem bankamennirinr í hverfinu gætu spókað sig.

Borgin hefur nú flutt skrifstofustarfsemi í eitt húsið og leigir það af Eykt. Turninn er hálfkláraður og að öðru leyti segir Hjálmar að framtíð svæðisins sé á huldu. Verið sé að klára að klæða turninn svo það næði ekki í gegnum hann en það hafi skapað mikinn hávaða.

Hjálmar segir að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn í borginni hafi lofað íbúum að bæta þeim skaðann en það hafi ekki verið staðið við það. Þá segir hann að honum sé það til efs að það verði nokkuð byggt á þessum reit næstu árin. Turninn komi jafnvel til að standa hálftómur og reiturinn, til að þar sem gamla Ræsishúsið stóð, standi bara auður.

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert