Vill kvótann á markað

Karl V. Matthíasson, varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis.
Karl V. Matthíasson, varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis. mbl.is/Friðrik

Karl V. Matthíasson, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, kveðst harma að tækifærið hafi ekki verið notað til að setja fiskveiðiheimildir á markað um leið og þorskkvótinn var aukinn um 30 þúsund tonn.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra gaf í morgun út reglugerð um að heildaraflamark yrði 160 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári í stað 130 þúsund tonna eins og áður hafði verið ákveðið.

„Ég fagna því að gefin hafi verið heimild fyrir auknum veiðum. Það er bæði í anda við niðurstöðu haustrallsins og allar þær vísbendingar sem sjómenn hafa gefið um afla. Hins vegar harma ég að þetta hafi ekki verið sett á markað til þess að þjóðin fengi peninga fyrir að selja aðgang að auðlind sinni, sérstaklega í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við núna,“ segir Karl.

Talsmaður Samfylkingarinnar í málaflokknum segir þetta endurspegla það sem menn séu að upplifa í samfélaginu um þessar mundir. „Það eru teknar mjög afdrifaríkar ákvarðanir án þess að tala við kóng né prest og allra síst við Alþingi. Þetta er fráleitt.“

Karl bendir einnig á að stjórnvöld hér ræði um mannréttindabrot víða um heim. „Á okkur liggur hins vegar úrskurður mannréttindadómstóls Sameinuðu þjóðanna um að framkvæmd laga um stjórn fiskveiða á Íslandi brjóti í bága við mannréttindi og atvinnufrelsi. Þarna hefði verið kjörið tækifæri til þess að breyta rétt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert