Spurningar dynja á frambjóðendum

Formannsframbjóðendur Framsóknarflokksins fordæma allir aðgerðir Ísraela á Gaza. Nú dynja á þeim spurningar frá fulltrúum og gestum flokksþinginu en á morgun verður gengið til atkvæða.

Spurt var í hvaða stjórnum í félögum og fyrirtækjum frambjóðendurnir ættu sæti í. Páll Magnússon á sæti í stjórn Landsvirkjunar en sagðist engin önnur tengsl hafa við fyrirtækið. Hann hefði verið alveg laus við að kaupa hlutabréf í gegnum tíðina. Ætti ekkert og hefði engu tapað.
Höskuldur Þór Þórhallsson sagðist ekki sitja í stjórn neinna fyrirtækja en að hann væri í stjórn stéttarfélags lögfræðinga.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagðist aðeins sitja í stjórn eins fyrirtækis, með það eina hlutverk að framleiða heimildamynd sem hann vann að. Þar hafi engir fundir verið haldið og félagið hvorki með tekjur né gjöld.
Jón Vigfús Guðjónsson sagðist heldur ekki eiga sæti í neinum stjórnum.

Frambjóðendurnir voru spurðir hver væri þeirra óska ríkisstjórn. Bæði Sigmundur Davíð og Höskuldur sögðu tíma á að hvíla Sjálfstæðisflokkinn. Jón Vigfús sagði hreinan meirihluta Framsóknar vera óskaríkisstjórnina en þar sem það væri ekki mjög líklegt yrði að leita fyrst til núverandi stjórnarandstöðu. Páll sagði að þessari spurningu væri erfitt að svara. Efna ætti til samstarfs við þá flokka sem væru líklegir til að vinna að málum Framsóknar.

Í framsöguræðum voru allir á því að Framsókn gengi nú til móts við nýja tíma og lítið var gefið fyrir dugnað ríkisstjórnarinnar á síðustu dögum.

Höskuldur sagði flokkinn aldrei hafa misst sjónar á hlutverki sínu og að það myndi hann aldrei gera. „Nú sem aldrei fyrr þarf þjóðin á virkilega öflugum og djörfum Framóknarflokki að halda,“ sagði Höskuldur og tók mjög eindregna afstöðu gegn matvælafrumvarpi ESB. Ísland ætti að hafna því. Það væri vel leyfilegt samkvæmt ESB og EES-samningnum.

Jóhann Vigfús lagði áherslu á grasrót flokksins og sagðist engum vera háður. Páll sagði atvinnustefnu Framsóknar hafa markað honum trúverðugleika og að á þeim grunni yrði brotist til nýrrar sóknar.

Sigmundur Davíð sagði rökleysu kommúnisma og frjálshyggju hafa afhjúpað sig með afgerandi hætti. Framsókn yrði að koma að uppbyggingu þjóðfélagsins. Flokkinn skorti traust. Hann hafi verið myndaður um heiðarleika og samvinnu en væri nú stimplaður sem flokkur sérhagsmuna og spillingar. Ekki mætti eyða allri orku í að ræða hvort það væri sanngjarnt heldur miklu fremur skapa flokknum traust að nýju.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert