Fimm hundruð mál enda hjá lögreglu

mbl.is/Ómar

Tæplega fimm hundruð mál einstaklinga, sem ekki skila sér í fjárnám hjá sýslumanninum í Reykjavík, lenda á borði lögreglunni á ári hverju. Sýslumaðurinn hefur kvóta og má senda lögreglu fjörtíu mál á mánuði. Sá kvóti er nær alltaf fullnýttur.

„Svona mál eru alltaf í gangi hjá okkur og hafa verið árum saman,“ segir Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, þegar hann er spurður út í aðgerðir Ólafs Helga Kjartanssonar, sýslumanns á Selfossi. Ólafur Helgi sagðist í gær ætla gefa út 370 handtökuskipanir á hendur einstaklinga sem ekki hafa skilað sér í fjárnám.

Rúnar segir talsvert um að einstaklingar mæti ekki til fyrirtöku vegna fjárnáms. „Ef menn hafa verið ítrekað boðaðir en mæta ekki setjum við mál þeirra í svokallaða lögregluboðun, sem er neyðarráðstöfun. Sum mál förum við með út, þ.e. gerum útifjárnám, og náum í fólkið heima. Verstu tilvikin eru þessi handtökumál, það eru ekki margir en alltaf einhverjir sem lenda í þeim.“

Árið 2008 voru skráðar 18.541 fjárnámsbeiðnir, nokkuð færri en á árið 2007.Þá voru 19.758 fjárnámsbeiðnir skráðar hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík. Rúnar segist ekki geta sagt til um hvort árið í ár verði öllu verra. „Nú rennur maður alveg blint í sjóinn. En auðvitað óttast maður.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert