„Fólk var að bíða eftir þessum degi“

Frá mótmælunum í dag.
Frá mótmælunum í dag. mbl.is/Júlíus

„Það eru óskir fólksins að við kæmum þessu á framfæri þegar þing byrjaði, og við gerðum það. Þetta eru háværar kröfur sem hafa verið á Austurvelli undanfarnar vikur. Og hvað gerist veit ég ekki,“ segir Hörður Torfason, talsmaður samtakanna Raddir fólksins, spurður út í mótmælin í dag og hvort framhald verði á þeim á morgun.

Hörður tekur fram að mótmælin séu ekki skipulögð. „Þarna er ekki verið að stjórna einu eða neinu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Fólk var að bíða eftir þessum degi,“ segir hann ennfremur.

Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu mun Geir H. Haarde forsætisráðherra ekki tjá sig um mótmælin við fjölmiðla.

Fólk orðið leitt á því að vera kurteist

Hörður segir að tilgangurinn með mótmælunum sé að hafa áhrif á stjórnvöld. „Fólk er orðið leitt á að vera kurteist og halda ræður [...] Ef stjórnvöld halda þessu striki þá verður allt vitlaust. Það er voðalega einfalt. Mótmælin eru að aukast um allt land,“ segir Hörður og bætir við að fólk sé reitt og það gangi ekki að stjórnvöld kalli mótmælendur skríl.

Mótmælin séu eðlileg viðbrögð við þeirri þöggun sem hafi átt sér og eigi sér stað. 

Spurður út í það hvort hann hafi áhyggjur af því að ofbeldið muni koma til með að aukast segir hann: „Við erum búin að vara alla ráðamenn við þessu.“

„Það eru stjórnvöld sem skapa þetta ástand,“ segir Hörður að lokum.

Hörður Torfason.
Hörður Torfason. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert