Frystigeymslur stútfullar

mbl.is/Þorkell

Hægari útflutningur sjávarafurða hefur leitt til söfnunar birgða hjá framleiðendum og flutningafyrirtækjum. Þannig eru frystigeymslurnar hjá Samskipum stútfullar. Þá hefur það aukist að afurðir séu geymdar í frystigeymslum erlendis.

Birgðir sjávarafurða hafa yfirleitt verið litlar á þessum árstíma. Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, telur að birgðir hafi oft samsvarað eins til tveggja mánaða sölu. Svavar Svavarsson, markaðsstjóri hjá Granda, segir að oft hafi vantað fisk á þessum árstíma, vegna undirbúnings sölunnar fyrir páskana.

Vegna hægari sölu frá því í haust á dýrari tegundum, eins og þorski og ýsu, og erfiðleika á mörkuðum í austurhluta Evrópu, hafa birgðirnar aukist. Framleiðendur vilja þó lítið gefa upp um birgðastöðuna, vegna hugsanlegra áhrifa slíkra frétta á markaðinn. Birgðirnar eru líka mismunandi eftir tegundum afurða.

Birgðirnar eru geymdar á mismunandi stöðum, hjá framleiðendum, flutningafyrirtækjum og í geymslum í erlendum höfnum. Gunnar Ólafur Kvaran, forstöðumaður útflutnings hjá Samskipum, segir að fullt sé út úr dyrum í Ísheimum. Frystigeymslurnar taka um 6.000 tonn og auk þess er fiskur geymdur í frystigámum. Áætlar hann að fyrirtækið sé með um 8.000 tonn af sjávarafurðum tilbúnum til útskipunar.

Það hefur aukist að framleiðendur geymi afurðir erlendis, nær markaðnum. Svavar segir að matvæli séu að fylla geymslur víða um heim, ekki aðeins fiskafurðir. Hann nefnir að til vandræða horfi í Japan af þessum ástæðum. Framleiðendur segja að það komi í ljós á næstu vikum og mánuðum hvort dregið hafi verulega úr fiskneyslu vegna efnahagsástandsins í Bretlandi og fleiri löndum, eða hvort aukning birgða er tímabundin vegna þess að birgðahaldið er að flytjast til framleiðendanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert