Ekki hjá því komist að kjósa á þessu ári

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sagðist á Alþingi í dag telja, að ekki yrði hjá því komist að kjósa á þessu ári. Ákveða þurfi í sátt hvaða tími sé hentugastur en það megi það ekki verða til þess að tefja þær erfiðu ákvarðanir, sem stjórnmálamenn þurfi að taka á næstunni. 

„Í þeirri sjálfhverfu sem fylgir óhjákvæmilega kosningum fara menn að hugsa um eigin hag og flokkanna sinna en ekki annað; það er bara þannig.  Og við höfum ekki efni á því á næstu dögum og vikum að bíða með að taka þær stóru ákvarðanir sem lúta að því að koma bankakerfinu af stað á ný," sagði Þorgerður Katrín.

Hún mörg verkefni, svo sem að leysa úr flækju vegna erlendra kröfuhafa  og koma samskiptum banka og fyrirtækja í betri farveg.

Þá sagði Þorgerður Katrín að háir vextir væru sá baggi, sem helst hvíldi á fyrirtækjum og heimilum. Gert hefði verið samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem miðaði að því að lækka verðbólgu svo hægt yrði að lækka vexti. Jafnframt hefðu verið sett á tiltekin gjaldeyrishöft.

Farið yrði yfir það í febrúar með fulltrúum sjóðsins hvernig gengið hefði. Ljóst væri, að gengi krónunnar hefði ekki styrkst eins og vonast var til og Íslendingar hlytu með rökum að fara yfir það með starfsmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hvort það myndi skila íslensku samfélagi meiri árangri og koma hjólum atvinnulífsins betur af stað, að lækka vexti og auka gjaldeyrishöft á móti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert